Category Archives: Fréttir

Góðir gestir frá Þýskalandi í heimsókn

Ársæll og THW Jugend frá BocholtVinir okkar í Ársæli komu í heimsókn í dag og höfðu með sér góða gesti frá bænum Bocholt í Þýskalandi. Þetta eru félagar í ungliðastarfi THW í sem voru að endurgjalda heimsókn Ársælinga til þeirra í fyrra. Þeir fengu sýniferð um aðstöðu HSSR og stutt ágrip af sögu sveitarinnar.

THW var sett á laggirnar árið 1950 og hefur þrifist og dafnað vel allar götur síðan. Þetta eru ríkisstyrkt samtök 80 þúsund sjálfboðaliða sem veita opinberum viðbragðsaðilum margvíslega aðstoð. Ungliðahlutinn er þróttmikill og gefur hann ungu fólki tækifæri á að takast á við fjölbreytt verkefni og gefa til samfélagsins.

HSSR þakkar kærlega fyrir heimsóknina og óskar gestunum góðrar skemmtunar í rigningarblíðviðrinu sem heilsaði þeim á höfuðborgarsvæðinu.

Nýliðar 2 tóku námskeiðið Straumvatnsbjörgun 1 um daginn, en þar fengu nýliðarnir að læra tæknina sem þarf til að séð um sig sjálfa og komið öðrum til bjargar í straummiklum ám.

Námskeiðið fór fram í Soginu og í Tungufljótum.
14138868_10209262961863420_1023081465217986304_o
14124497_10209262950143127_8061102018057557184_o

Grafarvogsdagurinn 2016

Nokkrir hressir félagar í sveitinni tóku á dögunum þátt í Grafarvegsdeginum með því að bjóða gestum og gangandi upp á að spreyta sig í klifurvegg. Skemmst er frá því að segja að þetta mæltist vel fyrir og var stöðug aðsókn allan tímann. Grafarvogsbúar standa þannig augljóslega með hjálparsveitinni sinni í starfi og leik.

Við þökkum kærlega fyrir okkur, sjáumst aftur að ári.

Flugeldasölustaðir HSSR

Sölustaðir Hjálparsveitar skáta í Reykjavík eru víða:

  • Malarhöfða 6
  • Bílabúð Benna, Vagnhöfða 23
  • Grjótháls 5 (við Össur)
  • Hraunbæ 123 (við Skátamiðstöðina)
  • Vínlandsleið í Grafarholti (við Húsasmiðjuna)
  • Spöngin
  • Skátafélagið Skjöldungar, Sólheimum 21a

Staðirnir eru opnir á milli kl. 10-22 nema á gamlársdag, en þá er lokað kl. 16.

Sölustaðir flugelda HSSR 2015

Hengill í gjólu, með áttavita

Við DyradalNúna á laugardaginn trítlaði fagur hópur úr Sleggjubeinsdal, yfir Húsmúlann, gegnum Marardal og í Dyradal.  Uppistaðan í hópnum var glaðbeittur hópur nýliða, sem hafði átt góða helgi vikuna áður saman á Úlfljótsvatni, á námskeiðinu Ferðamennska og rötun.

Ferðin átti upphaflega að liggja uppá ‘svörtu’ gönguleiðina rétt við mynni Marardals, og þar uppá Vörðu-Skeggja, en þar sem gjólan stóð svo leiðinlega á okkur, ákváðum við að breyta um kúrs og halda stefnunni fram á veg.

Þar á dalseggjum Dyradals blés aðeins betur á hópinn, svo menn tóku skottísstöðu og valhoppuðu 3-4 saman, hönd í hönd, í skjól. Fóru nýliðar þar fram með aðdáunarverðum hætti, þótt ekki hafi allir reynslu af svona kúnstum á fjalli.

Allir komust að lokum í var í Dyradal þar sem bílahópsmenn sóttu okkur, aðeins fyrr en að var stefnt.

e.s. svona til þess að gæta sannmælis þá hefur líklega slegið aðeins yfir 20 m/s þegar mest var.

Nýliðaþjálfun: þarnæsta skref :)

Sæl, eins og skynugt fólk gat sér til, þá er næsti hittingur núna þriðjudaginn uppá Malarhöfða, eða M6 eins og hann er kallaður í daglegu tali, eins og kemur fram skýrt í dasgskránni (og já, ég biðst afsökunar ef ég fór með rangt mál).

Kvöldið verður annars vegar almenn kynning á útbúnaði sem nýtist í starfi – fjallað verður um mismundandi tegundir af skóm, lagskiptingi klæðnara, og margt fleira. Í og með verður svo helgarnámskeiðið, Ferðamennska og rötun, kynnt.

Mæting er kl. 20 og við verðum í ca. 2 tíma.

Með þessu búnaðarkynningarkvöldi lýkur eiginlegri kynngardagskrá nýliðastarfsins, umsóknarfrestur er reyndar til og með miðvikudeginunm (sjá hér). Við hvetjum því sem flesta sem ekki eru búnir að skrá sig til þess að koma og kíkja á okkur.

Ferðamennska og rötun

Hin eiginlega þjálfun hefst með helgarnámskeiðinu Ferðamennska og rötun, sem verður kennt á Úlfljóstvatni. Námskeiðið, leiðbeinendur og búnaðarlisti verða kynntar sérstaklega með pósti síðar.

Fyrirspurnir : netfang

Ef e-r ykkar hafa sérstakar fyrirspurning, pælingar eða annað sem þið mynduð vilja bera undir okkur Kormák, þá endilega gerið það: Þetta er netfangið okkar: hssr.nylidar.2015@gmail.com

Nýliðaþjálfun, næstu skref

Núna í kvöld, lauk velheppnaðri nýliðakynningu HSSR á Malarhöfðanum, þar sem Tómas sveitarforingi kynnti sveitina og nýliðaforingjar næsta starfsárs, þeir Kormákur og Stefán Baldur, kynntu þjálfunarferlið, kröfurnar og gleðina – með skemmtilegu innslagi Sólvegar og Kristins.

Þó nokkur hópur skráði sig í nýliðaþjálfunina, en fyrir þá sem náðu því ekki núna, þá má finna skrá sig hér.

Frestur til þess að ljúka skráningu er til 9. september (sjá hér að neðan).

Næst, Helgafell
Næsti liður í kynningunni er létt kvöldganga á Helgafell á fimmtudaginn. Mæting er á Malarhöfðann kl. 18, og verður farið á bílum sveitarinnar, gengið á Helgafell, spjallað og skoðað. Fararstjóri er Martin Swift (Tinni).

Ferðamennska og rötun
Fyrsta stóra námskeiðið í nýliðaþjálfuninni verður svo haldið að Úlfljótsvatni helgina 11-13. September.

Miðvikudaginn 9. verður stutt undirbúningskvöld fyrir helgina þar sem verður m.a. farið yfir einstaklingsbúnað og almennur og sérhæfður ferðabúnaður verður kynntur.

Þá um kvöldið er síðasti séns á að skila inn umsókn.

HSSR á hálendinu í ágúst

Í ágúst munu ellefu félagar úr sveitinni standa hálendisvakt á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Verkefnin felast í ráðgjöf til ferðafólks og aðstoð ef einhver lendir í vandræðum. Áherslan er alltaf á góða ráðgjöf til þess að koma í veg fyrir óhöpp og hefur árangurinn af því starfi verið að sýna sig æ betur á undanförnum árum.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur sent hópa í 1-2 vaktir undanfarin ár og væntanlega verður ekkert lát á í framtíðinni. Góður árangur af rekstri hálendisvaktarinnar er ótvíræður og svo er þessi vikuvist góð þjálfun félagana í kringumstæðum sem sveitir af höfuðborgarsvæðinu komast sjaldan í tæri við í starfi sínu.

Ferðafólk er hvatt til þess að leita sér upplýsinga á vefjum Vegagerðar og Veðurstofu áður en lagt er í ferðalög. Þá er hægt að sækja margvísleg hollráð á vef Safetravel. Að lokum er minnt á að ávallt er hægt að hnippa í björgunarfólk þegar á hálendið er komið og fá góð ráð um ástand vega.

Á myndinni má sjá aðfarirnar við matseld í Drekagili árið 2014.

halendisvakt-2014

Sögulegar minjar

Í gær barst sveitinni ábending um að gamall fjarskiptabúnaður merktur henni væri í endurvinnslugámi og biði þess að verða tekinn í sundur í frumeindir sínar. Brugðist var skjótt við og í snaggaralegri aðgerð var búnaðinum bjargað úr gámnum og komið fyrir á efstu hæð á Malarhöfðanum þar sem nú er að finna vísi að minjasafni HSSR.

Þetta er þörf áminning um að okkur ber að gæta að gömlum verðmætum því þótt ekki sé svona búnaður dýr í krónum, þá er hann ómetanlegur sem sögulegar minjar um starfsemi sveitarinnar í öll þau 83 ár sem hún hefur verið starfrækt. Því skorum við á lesendur að kanna hvort svona dýrgripir leynist innan seilingar hjá þeim og ef svo er, koma þeim þá til sveitarinnar svo hægt sé að skrá þá og setja í minjasafnið. Allur búnaður er vel þeginn og ekki hvað síst persónubúnaður sem getur varpað ljósi á hvernig björgunarmenn hafa verið búnir í störfum sínum í gegnum tíðina. Þá eru hvers kyns skjöl og ljósmyndir afar vel þegin.

Hafið samband með tölvupósti í netfangið hssr@hssr.is eða hringið í síma 577-1212 ef frekar upplýsinga er þörf.

Bakhjarlar sveitarinnar

Bakhjarlar HSSR

Þriðjudaginn 19. maí fékk Hjálparsveit skáta í Reykjavík góða heimsókn, en þá tóku á henni hús nokkrir fulltrúar bakhjarla hennar, fengu kynningu á starfseminni og þáðu veitingar. Þetta er í fyrsta skipti sem Hjálparsveit skáta í Reykjavík veitir viðurkenningar af þessu tagi, en ljóst er að eftirleiðis verður þetta árlegur viðburður í byrjun sumars.

Lengi hefur verið vitað að framlag vinnustaða til útkallsmála er vanmetið, en án þess sveigjanleika sem björgunarfólk fær þar væri rekstur útkalla mun erfiðari en ella. Því óskaði stjórn HSSR eftir því að félagar myndu tilnefna þá vinnustaði sem þeir teldu að ættu að fá viðurkenningu og eru þeir í ár eftirfarandi:

  • BYKO
  • Fjallakofinn
  • Habilis ehf.
  • LEE rafverktakar ehf.
  • Lýsi hf.
  • Malbikunarstöðin Höfði hf.
  • Prentsmiðjan Oddi
  • Rafsvið sf.
  • RST Net ehf.
  • Stormur ehf.
  • TM Software ehf.
  • VSB verkfræðistofa ehf.

En það eru ekki bara vinnustaðirnir sjálfir sem eiga góðar þakkir skildar því iðulega axla samstarfsfélagar björgunarfólks verkefni þeirra þegar útkall berst. Það er ómetanlegt og sýnir vel samhug þjóðarinnar þegar á reynir.

Stjórn sveitarinnar þakkar kærlega fyrir þetta framlag vinnustaða og samstarfsfólks, en með því eru þessir aðilar í raun órjúfanlegur hluti af útkallsferlinu.

Viðurkenning 2015