Fimm meðlimir HSSR fóru ásamt tíu meðlimum annarra sveita á fagnámskeið í leitartækni liðna helgi. Námskeiðið stóð yfir í fjóra daga og var bóklegi hlutinn kenndur í Skógarhlíðinni. Fyrirlestrar voru haldnir um hinar ýmsu aðferðir sem notaðar eru í leitum. Einnig voru nokkrar leitir rýndar og athugað hvað fór úrskeiðis og hvað var rétt gert. Fjölmargar æfingar voru haldnar í nágrenni Reykjavíkur þar sem að allar tegundir leitar voru æfðar, allt frá fínleit sem líkist stangarleit upp í stórar leitaræfingar. Helstu nýjungar sem kynntar voru til sögunnar og lögð var mikil áhersla á er svo kölluð hljóðleit. Hún felur í sér notkun á flautum en sú aðferð eykur líkur á að finna hinn týnda til muna. Meðfylgjandi mynd er af Fox 40 flautu sem er sannkallaður Rolls flautanna!
—————-
Texti m. mynd: Fox 40 flauta
Höfundur: Hanna Lilja Jónasdóttir