Fagnámskeið í leitartækni

Fimm meðlimir HSSR fóru ásamt tíu meðlimum annarra sveita á fagnámskeið í leitartækni liðna helgi. Námskeiðið stóð yfir í fjóra daga og var bóklegi hlutinn kenndur í Skógarhlíðinni. Fyrirlestrar voru haldnir um hinar ýmsu aðferðir sem notaðar eru í leitum. Einnig voru nokkrar leitir rýndar og athugað hvað fór úrskeiðis og hvað var rétt gert. Fjölmargar æfingar voru haldnar í nágrenni Reykjavíkur þar sem að allar tegundir leitar voru æfðar, allt frá fínleit sem líkist stangarleit upp í stórar leitaræfingar. Helstu nýjungar sem kynntar voru til sögunnar og lögð var mikil áhersla á er svo kölluð hljóðleit. Hún felur í sér notkun á flautum en sú aðferð eykur líkur á að finna hinn týnda til muna. Meðfylgjandi mynd er af Fox 40 flautu sem er sannkallaður Rolls flautanna!

—————-
Texti m. mynd: Fox 40 flauta
Höfundur: Hanna Lilja Jónasdóttir

Fagnámskeið í leitartækni

Fagnámskeið í leitartækni var haldið síðustu helgi í september.. Þátttakendur voru 15 frá Hjálparsveitum skáta í Reykjavík, Kópavogi og Hveragerði ásamt Kyndli í Mosfellsbæ. Námskeiðið gekk vel en fjallað var um hluti eins og líkur á fundi, hópstjórn, hegðun týndra, samskipti svæðisstjórna og leitarhópa ásamt upprifjun á grunnatriðum leitartækni og nýjum áherslum. Fjöldi verklegra æfinga var á námskeiðinu, alls 9 talsins, og eins og ávallt var ánægja með það fyrirkomulag. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Sigurður Ólafur Sigurðsson og honum til aðstoðar var Dagbjartur K. Brynjarsson og fleira gott fólk. Alls sóttu 9 einstaklingar frá HSSR námskeiðið en það er ein af forsendum fyrir því að starfa með sérhæfðum leitarhóp.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fagnámskeið í leitartækni

Verður haldið hjá Björgunarskólanum 25. til 28. september. Markmið með námskeiðinu er að veita þátttakendum sérhæfða faglega þekkingu í leit að týndu fólki og að gera hópstjórnendur í leitaraðgerðum hæfari til að taka réttar ákvarðanir varðandi leitaraðferðir og skipulagningu. Þegar eru níu einstaklingar frá HSSR skráðir á námskeiði. Ef þú hefur áhuga á að skrá þig þá sendu póst á hssr.@hssr.is

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson

Fagnámskeið í leitartækni

Tekið af póstlista Landsbjargar.

Vegna fjölda áskorana verður haldið fagnámskeið í leitartækni strax í haust í stað nóvember eins og undanfarin ár. Námskeiðið verður haldið í Reykjavík dagana 25.-28. september n.k. Skráning er hafin á vefnum. (landsbjorg.is)

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson