Fjallahópur á Skessuhorni

Sunnudaginn 4 desember fóru átta félagar í Fjallahópi í fjallgöngu á Skessuhorn. Spáð hafði verið nístingskulda og roki en nokkuð rættist úr veðri því þennan dag var frost vægt og vindur léttur norðan Skarðsheiðinnar.

Nokkuð þungfært var upp að toppi þar sem gljúpur snjór lá yfir öllu svo hópurinn skiptist á að ryðja slóðina frá vegi upp að Skessuhorni. Greiðlega gekk að finna leið upp sjálfa hlíðina en uppi á hryggnum var undirlagið ísi lagt. Göngumenn smelltu því undir sig broddunum fyrir síðasta spottann eftir hryggnum og upp á topp.

Gott skyggni var til austurs og vesturs og fallegt útsýni yfir hamrabeltin í Skarðsheðinni norðanverðri allt frá Heiðarhorni og inn að Skorradalsvatni. Eftir stutt stopp til að næra sig og njóta útsýnisins var svo haldið niður til að ná niður fyrir brattasta kaflann fyrir myrkur.

Sérdeilis prýðileg ferð og góð byrjun á vetrarvertíðinni.

—————-
Texti m. mynd: Fjallahópsliðar nálgast tindinn.
Höfundur: Martin Swift