Flygildi-bak

Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur undanfarna mánuði kannað notagildi flygilda með góðum árangri. Tilraunir og rannsóknir með því hafa m.a. skilað eftirfarandi gögnum:

Rannsóknir á þróun leitarlínu í aðgerðum: Youtube
Rannsóknir á árangri í leit m. myndavél: Dropbox
Handstýrt flug eftir fjöru: Youtube
Handstýrt flug eftir skurðum og vatnsrásum: Youtube
Handstýrt flug eftir Úlfarsá: Youtube
Forritað flug í helluhrauni: Youtube

Næsta skref sem við viljum taka er að kaupa vandaða hitamyndavél sem mun nýtast afar vel í skammdeginu. Rétt beiting slíks búnaðar getur ráðið úrslitum í leitar- og björgunaraðgerðum og því er nauðsynlegt að kanna vel hvernig þessum búnaði er beitt, hverjar eru takmarkanir hans og hvar hann kemur best að notum.

Hjálparsveit skáta í Reykjavík stendur að þessum rannsóknum í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Það tryggir að bestu fagmenn hérlendis í leitarfræðum koma að verkefninu, fara yfir forsendur og meta niðurstöður.

Nánari upplýsingar gefur Ólafur Jón Jónsson í síma 699-1000 eða netfanginu olijon@gmail.com.

—–

Viðbót 16. október 2015 – Raunhæft dæmi úr leit að 26 ára karlmanni þann 14. október sl.

Einum leitarhópa HSSR var m.a. falið að leita eftirfarandi þrjá staði í þessu útkalli:

  • Ofanverðan Elliðaárdal
  • Fjölskyldu- og húsdýragarðinn
  • Fossvogskirkjugarð

Elliðaárdalurinn
Við hófum leitina 30 mínútum eftir sólarlag. Þungskýjað var og rigning var með köflum. Það tók þrjá björgunarmenn 40 mínútur að ganga upp með ánni og leita hana með þeirri nákvæmni sem það býður upp á. Það tók hins vegar rúmlega þrjár mínútur að fljúga upp með ánni og skilaði sú vinna mun betri og nákvæmari niðurstöðum þrátt fyrir að birtuskilyrði væru óhagstæð. Þetta myndskeið sýnir flugið, en það hefði með réttu átt að vera ögn hægara og taka fimm mínútur í flugið. Hraðinn skýrist af því að það var von á góðri rigningarskúr og þess vegna ákvað flugmaður að bæta í hraðann. Með hitamyndavél hefði verið hægt að fara hærra og framkvæma enn nákvæmari leit og spara lágmark tvo tíma björgunarfólks auk þess að leitin hefði orðið mun nákvæmari.

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Leitað var í myrkri þar og tók sú aðgerð fjóra björgunarmenn um 50 mínútur. Þar sem í garðinum er að finna fjölmarga yfirbyggða staði á borð við hús og afþreyingartæki hvers konar, hefði verið gott að taka eitt flug yfir hann með hitamyndavél og útiloka öll opin svæði strax. Þá hefði verið hægt að beina leitinni að húsunum og stytta þannig leitartíma umtalsvert. Hægt er áætla að þarna hefðu sparast um þrír tímar hjá björgunarfólki auk þess að leitin hefði orðið mun nákvæmari.

Fossvogskirkjugarður
Leitað var í myrkri og tók sú aðgerð 20 björgunarmenn um 60 mínútur. Garðurinn sjálfur er alveg opinn úr loft, en í jöðrum hans má finna 3-4 athafnasvæði fyrir starfsmenn sem á má finna nokkra yfirbyggða staði. Það hefði því verið hægt að leita garðinn sjálfan á 5-8 mínútum og útiloka hann og afgreiða síðan athafnasvæðin með fjórum björgunarmönnum á 10-15 mínútum. Því er ljóst að bara í þessu eina verkefni hefði losnað um lágmark 15 klukkustundir í virkum leitartíma sem hefðu nýst betur annars staðar.

Heildartímasparnaður er því áætlaður í kringum 20 tímar í þessum þremur verkefnum fyrir utan þá auknu nákvæmni sem fylgir réttri notkun hitamyndavélar. Ómæld eru síðan þau áhrif sem það hefði haft ef hinn týndi hefði fundist og þá fyrr en ella.