Föstudagurinn langi

Við félagarnir Páll og Kristinn í sleðahóp HSSR ákváðum að taka föstudaginn langa snemma þar sem veðurútlitið var mjög gott. Stefnan var tekin á Sigöldu með viðkomu í Hrauneyjum þar sem við hresstum okkur við með kaffibolla. Í Hrauneyjum var margt um manninn og greinilegt að margir ætluðu sér að nýta góða veðrið.
Við tókum sleðana af við Sigöldu í frábæru veðri. Sólin skein og logn. Fyrsti viðkomustaður var í Glaðheimum en þar var okkur boðið upp á grillaðar pylsur og kaffi í eftirrétt. Gestrisnin klikkar aldrei á þessum bæ. Héðan var stefnan tekin á Breiðbak og ekki áð fyrr en hæsta punkti var náð. Þvílíkt útsýni. Ekki skýhnoðra að sjá. Hvannadalshnjúkur í austri, Hágöngur í norðri, Langjökull í vestri og Langisjór við fætur okkar. Þetta gerist ekki betra. Héldum héðan austur fyrir Langasjó og brunuðum eftir frosnu vatninu að Sveinstindi og suður með Grænafjallgarði. Færið var eins og best verður á kostið og sleðarnir brunuðu áreynslulaust yfir hjarnið. Þegar komið var fyrir fjallgarðinn var stefnan tekin á Tungnaá og Tröllið við Snjóöldu sótt heim. Tröllið var á sínum stað og ekkert fararsnið á því þennan dag. Eftir hressingu brunuðum við niður Tungnaá en Þar varð á leið okkar hópur erlendra ferðamanna sem gengið höfðu á skíðum yfir Vatnajökul.
Stutt stopp var tekið í Glaðheimum og þar tankað. Við fengum að prófa það nýjasta í sleðasportinu og greinilegt að margt áhugavert er að gerast hjá sleðaframleiðendum.
Ferðin niður í Sigöldu gekk vel fyrir sig með stuttu stoppi í Landmannalaugum. Ótrúlegt hvað fáir voru staddir í Laugunum í þessu líka frábæra veðri.
Við vorum sælir og þreyttir félagarnir er við héldu heim á leið eftir langan og góðan föstudag. Góðir 200 kílómetrar að baki í sól og sælu.
Myndir eru komnar á myndasíðu.

—————-
Texti m. mynd: Fallegt útsýni af Breiðbak, Hvannadalshnjúkur
Höfundur: Kristinn Ólafsson