HSSR mannaði tvær vaktir í Hálendisvakt þetta sumar. Svæðið norðan Vatnajökuls varð fyrir valinu og var sveitin við störf á tímabilinu frá 27. júlí til 10. ágúst. Samtals tóku átta félagar þátt í Hálendisvakt að þessu sinni.
Verkefnin voru margbreytileg. Lindaáin við Herðubreiðarlindir var nokkuð fastur punktur í dagskrá fyrri vaktarinnar, en Jökulsá á Fjöllum flæddi töluvert oft yfir bakka sína og yfir í hana með tilheyrandi aukningu á vatnsmagni. Fjöldi annarra úrlausnarefna beið einnig björgunarfólks og má þar nefna vandamál tengd hjólbörðum, bremsukerfum, viftureimum og hverju því sem þarf að vera í lagi svo bíllinn gangi vel. Þá var vaktfólk til taks að aðstoða og leiðbeina ferðafólki um leiðarval og hefur sú aðstoð örugglega leitt af sér fækkun slysa og óhappa.
Akstur um svæðið er hluti af verkefnum Hálendisvaktar og var víða farið. Meðal annars voru Dyngjafjalla- og Gæsavatnaleiðir eknar með viðkomu í skálanum við Kistufell þegar púlsinn var tekinn á stöðunni á Sprengisandi. Farið var í Hvannalindir, Kverkfjöll og víðar, en líklega hefur vaktfólk ekið um 2.500 kílómetra á tímabilinu.
HSSR vill koma á framfæri innilegu þakklæti til skálavarða og landvarða sem vaktfólk komst í tæri við, en þeir voru ætíð ráðagóðir og fljótir til verka ef eitthvað bjátaði á. Þá var aðstaða björgunarfólks í Drekagili prýðileg. Einnig er rétt að geta þess að þjónustufólk á Mývatni sýndi mikla lipurð í viðleitni sinni til þess að koma ferðafólki í vanda til hjálpar. Fólk kemur sannarlega ekki að tómum kofunum þegar Mývetningar eru sóttir heim!
Og þá er rétt að geta þess að Björgunarsveitin Stefán fær sérstakar þakkir fyrir kærkomna aðstoð þegar mest lá við, en þar er hvert rúm skipað úrvals góðu fólki. Það var HSSR fólki t.d. mikið ánægjuefni að hitta tvo félaga sem flust hafa búferlum norður og gengið til liðs við þessa góðu björgunarsveit.
Hjálparsveit skáta í Reykjavík hefur staðið Hálendisvakt frá því að til hennar var stofnað og er engin ástæða til að ætla annað en að hún muni svara kallinu að ári. Í þessu verkefni sameinast tækifæri til þess að láta gott af sér leiða og til þess að kynnast betur þeim náttúruperlum sem hálendi Íslands hefur upp á að bjóða.
—————-
Texti m. mynd: Eygló, landvörður í Hvannalindum, bruggar te.
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson