Helgina 22 – 23 maí stóð Viðbragðshópur fyrir fjallaferð á Hrútsfjallstinda sem er nafnið á 4 glæsilegum fjallstindum sem standa norðan við Svínafellsjökul og rís sá hæsti þeirra 1.875 mtr yfir sjávarmál.
6 HSSR liðar og 5 manna fylgdarlið hóf gönguna við rætur Hafrafells klukkan 00:00 sunnudaginn 23. Í heildina tók fjallaferðin okkur 16 klst, þaraf fóru 2 klst í að dást að útsýninu af Hátindi, hæsta tindi Hrútsfjallstinda, og við Vesturtind. Sem við fórum einnig uppá. Hina tvo ROSA flottu tinda, Miðtind og Suðurtind, létum við okkur nægja að dást af. Maður verður að fara þarna upp aftur og taka þá.
Veðrið var eins og það best getur orðið… logn, sól og steikjandi hiti. Það var varla hægt að tala um golu, en hún hefði verið vel þegin til að kæla aðeins.
Leiðin okkar sem er hin hefðbundna gönguleið á tindana býður upp á stórbrotið útsýni yfir Öræfajökul sem og skriðjöklana Svínafellsjökul og Skaftafellsjökul.
Óhætt er að segja að þetta sé stórkostleg fjallganga um heim jökla og hárra tinda.
Myndir úr ferðinni eru komnar á myndasíðuna.
Þeir sem mættu fá þakkir fyrir góða ferð.
—————-
Texti m. mynd: Hrútsfjallstindar 23. maí 2010
Höfundur: Ragnar K. Antoniussen