Haldið var á Þingvallavatn að morgni Sjómannadags, metmæting var í ferðina, eða 27 manns og því ljóst að þetta sport nýtur vaxandi vinsælda meðal félaga. Ættu þónokkrir að vera orðnir vel liðtækir í strandleit á sjókajak.
Veðurguðirnir gátu ekki gert betur við ferðalanga, blankalogn og sólskin og speglaðist fjallahringurinn í vatnsfletinum. Róið var frá Hagavík, meðfram ströndinni og snúið til baka í Hestvík, að sjálfsögðu var tekin nestispása á leiðinni, þar sem menn gátu sólað sig nokkra stund. Leiðin er með eindæmum falleg, gatklettur, Klumba, sem róið var í gegnum og hamraklettar þar sem “sjóflug” lá prúður á hreiðrum sínum. Sá sögulegi viðburður átti sér stað að Arnarklettur var klifinn beint úr kajak og átti Óskar Ingi heiðurinn að því með dyggri aðstoð, ekki vitað til að kletturinn hafi verið klifinn áður.
Ánægðir og sólbrenndir félagar komu til baka fyrir kvöldmat. Sérstakar þakkir fá
Ultima Thule fyrir lán á kajökum, Lambi fyrir aðstoðina og Kristjón fyrir gott skipulag.
(Skoðið myndirnar – HSSR – Myndir)
—————-
Höfundur: Skúli Þórarinsson