Í gær barst sveitinni ábending um að gamall fjarskiptabúnaður merktur henni væri í endurvinnslugámi og biði þess að verða tekinn í sundur í frumeindir sínar. Brugðist var skjótt við og í snaggaralegri aðgerð var búnaðinum bjargað úr gámnum og komið fyrir á efstu hæð á Malarhöfðanum þar sem nú er að finna vísi að minjasafni HSSR.
Þetta er þörf áminning um að okkur ber að gæta að gömlum verðmætum því þótt ekki sé svona búnaður dýr í krónum, þá er hann ómetanlegur sem sögulegar minjar um starfsemi sveitarinnar í öll þau 83 ár sem hún hefur verið starfrækt. Því skorum við á lesendur að kanna hvort svona dýrgripir leynist innan seilingar hjá þeim og ef svo er, koma þeim þá til sveitarinnar svo hægt sé að skrá þá og setja í minjasafnið. Allur búnaður er vel þeginn og ekki hvað síst persónubúnaður sem getur varpað ljósi á hvernig björgunarmenn hafa verið búnir í störfum sínum í gegnum tíðina. Þá eru hvers kyns skjöl og ljósmyndir afar vel þegin.
Hafið samband með tölvupósti í netfangið hssr@hssr.is eða hringið í síma 577-1212 ef frekar upplýsinga er þörf.