Sunnudaginn 26. janúar sl. stefndu undanfarar og undanrennur í dagsferð upp NA hrygg Skessuhorns. Þessi leið hefur verið nokkuð vinsæl alpanísk klifurleið á veturna.
Í fyrra þegar ætlunin var að fara þess leið hömluðu óveðurský yfir tindinum för okkar og enduðum við því inn í Villingadal þar sem við klifruðum upp gil í suðurhliðum dalsins – leiðin fékk heitið „Virgin Blöndahl“.
Í ár voru veðurguðirnir okkur hliðhollari og fengum við prýðis gott veður til fjallaferða.
Ferðin byrjaði eins og svo margar aðrar fyrir allar aldir upp á M6 þar sem hálfnakið fólk stóð fyrir framan skápana sína, barðist við að velja klæðnað fyrir daginn og búnað í bakpokan. Allt hafðist þetta að lokum og klukkan 10 vorum við komin að bænum Horni í Skorradal, réttar sagt fyrir utan hliðið.
Við vorum 7 saman og ákváðum að skipta okkur í tvo klifurhópa. Þá var kosið í lið eins og í barnaskóla forðum daga og að því loknu þrammað upp brekkurnar í átt að takmarki dagsins.
Eftir rúmlega klukkutíma göngu stoppaði heimasætan í hópnum og heimtaði lögbundið hádegishlé, það var því sest niður í brekkunum undir kötlum.
Þegar allir höfðu skellt í sig smá næringu var lagt af stað upp brekkurnar þar sem menn þrjóskuðust fram í rauðan dauðan við að setja á sig broddana.
Öll enduðum við samt undir klettunum á horninu og vorum að binda okkur í línurnar um 13:00.
Arnar, Magnús og Tinni lögðu fyrstir af stað og þræddu sig framhjá fyrstu klettabeltunum á meðan Ottó, Katrín, Danni M. og Stefan ákváðu að svindla ekkert á leiðinni og byrjuðu klifrið í fyrstu klettabeltunum. Kapphlaupið var spennandi á köflum og skiptust liðin á að halda forustunni upp hrygginn -svo hörð var keppnin að Tinni og Danni M. sviku lit og skiptu um lið.
Aðstæður voru ágætar og var aðallega notast við snjótryggingar en erfitt var að koma fyrir öðrum tryggingum.
Um kl. 17:00 komumst við upp á topp þar sem menn skáluðu í te og öðrum drykkjum.
Vindurinn var hinsvegar aðeins farinn að rífa í og útsýnið á toppnum takmarkað fyrir þoku/snjófoki.
Það var því ekkert annað að gera heldur en að smella af einni hópamynd og drífa okkur niður venjulegu gönguleiðina.
Þar var allt á kafi í snjó og eflaust snjóflóðahætta í sumum brekkunum. Allt gekk þetta samt vel að lokum og vorum við komin niður í bíl kl. 19:40, ánægð eftir góðan dag á fjöllum.
Ottó Ingi Þórisson.