Vatnajökulsvorferð

Það var frítt föruneyti sem lagði af stað frá M6 rétt fyrir klukkan 19 miðvikudagskvöldið 20. maí síðastliðinn á Reyk 1,2 og 3. Var förinni heitið í Jökulheima með tilheyrandi hamborgarastoppi í Hrauneyjum. Snemma á fimmtudagsmorgun vaknaði hópurinn við ómþýðan söng fararstjórans sem, eins og lóan, brestur í söng á fögrum sumarmorgnum sem þessum, enda sól í heiði og ekki ský á himni.

Á jökulsporðinum hittum við Bola sem tók við af Reyk 1 og stuttu eftir að komið var upp á sléttan jökul voru skíðin sett undir leiðangursmenn og stefnan tekin á fyrsta viðkomustað dagsins, Kerlingar. Var þaðan haldið sem leið lá yfir á Hamarinn og þaðan á Bárðarbungu. Var blíðan og fegurðin slík að einum varð á orði að nú ætti hann að hætta jöklaferðum, toppnum væri náð. Loks var haldið í Kverkfjöll þar sem skyldi hafst við um nóttina. Þar var kveikt í grillinu og snæddur kvöldverður við ekki sérlega dónalegt útsýni yfir lónið.

Á föstudagsmorgun var haldið norður eftir Kverkfjallahrygg í smá útsýnistúr og hluti hópsins fór að skíða niður Löngufönn á meðan aðrir fóru niður í Hveradal. Seinnipartinn var lagt af stað úr Kverkfjöllum suður í Grímsvötn. Þegar þangað var komið var aðeins farin að þyngjast brúnin á kára og farið að blása smávegis. Var smellt upp tjaldbúðum undir Grímsfjalli og svo haldið í útsýnistúr inn í vötn þar sem skoðuð voru ummerki síðust eldsumbrota. Eftir kvöldmat og kvöldkaffi í boði fararstjórans í Bola var farið að hvessa talsvert og gerði heldur leiðinlegt veður um nóttina og laugardagsmorguninn með heldur litlum svefni. Þar sem veðrið átti ekki eftir að skána var tekin sú ákvörðun að drífa sig niður af jöklinum og halda í bæinn.

Þrátt fyrir að ferðin yrði aðeins styttri en menn gerðu ráð fyrir skildu allir sáttir og örlítið sólbrenndir við eftir frábæra ferð á jökul.

—————-
Höfundur: Rún Knútsdóttir