Öræfajökull um Hvítasunnuna

Það var sprækur 17 manna hópur sem lagði af stað frá M6 föstudaginn 29. maí áleiðis í Skaftafell.
Takmarkið var að ganga á Hnúkinn (2109 m)..og ekkert minna en það enda samanstóð hópurinn aðallega af „nýjum“ hörkutólum úr Nýliðum 2 + reynsluboltunum Árna Tryggavasyni sem var fararstjóri ferðarinnar og Árna Árnasyni sem sá um að ferja liðið á Reyk 1.
Stutt stopp fyrir einn sveittann borgara á Hvolsvelli sem var hrein snilld.
Komið var svo á tjaldstæðið í Skaftafelli í kringum miðnætti, tjaldbúðum var slegið upp (og já, einum tjaldvagni sem tilheyrði Trailer Park genginu) og var ákveðið að sofa út morguninn eftir þar sem veðurspáin var ekki Hnúkaleg fyrir laugardaginn.
Eftir góðann lúr vöknuðu sumir kl 8, en aðrir kl 10, hellt var upp á tvær stórar expressókönnur og fékk tjaldvagninn nafnið Kaffivagninn J
Staðan var tekin og ákveðið að byrja á því að rölta að Svartafossi í mígandi rigningu. Nýliðar voru þó ekkert að láta það á sig fá enda algjör skylda að berja þann foss augum.
Eftir rölt að Svartafossi var pylsu –og Euorvision partýi slegið upp hjá Trailer Park genginu, sungið af mikilli innlifun; Is it true, is it over.. en aðrir ákváðu að leggja sig J
Eftir smá chill, lúr og söng fengu nýliðar smá forskot á sæluna en Árni farastjóri ákvað að ferja liðið að Svínafellsjökli, þar sem hópurinn fékk að speyta sig á broddagöngu, smá klifri, sprungubjörgun og sigi undir frábærri leiðsögn Árna.
Gott að æfa þetta áður en farið er uppá Hnúkinn, því aldrei er hægt að vita hvernig færð/veðrið er á jöklinum.
Þarna spókuðum við okkur í hreint stórkostlegu umhverfi og lét sólin meira að segja sjá sig í nokkar mínútur J
Undir kvöld gerði hópurinn sig klárann fyrir nóttina enda var tekin sú ákvörðun að leggja á Hnjúkinn kl. 0200.
Sumir voru „grand“ á því og grilluðu (Tófurnar) en aðrir elduðu núðlusúpur með pylsum, smurðu samlokur ,blönduðu orkudrykki eða settu kús,kús og kjúkling í box.
Klukkan var svo bara allt í einu orðin níu og brottför af tjaldsvæði var áætluð kl 01:15.
Nú var best að leggja sig aðeins.
Vöknuðum við eða fórum á fætur á milli 00:00-00:30, tókum okkur til og lögðum af stað frá tjaldsvæðinu kl 01:24.
Lagt var á Sandfellið kl 02:09 (samkvæmt sérlegum útreikningum Esra).
Veður var ágætt og gönguhraði frekar rólegur í byrjun enda um 14 tíma ganga framundan.
Komið var í snjó kl. 04:15 og skyggni þá orðið frekar lélegt.
Eftir klukkutíma rölt í snjó var komið í um 1300 m hæð og þá var græjað í þrjár línur og tekin góð matarpása. Þarna var skyggni orðið svo slæmt að varla sást á milli aftasta og fremsta manns í línu.
Aftur var haldið af stað og „brekkan“ endalausa tók við,við mættum einum hópi á leið niður en þau höfðu snúið við útaf veðri. Eitthvað lá sumum á þannig að hópurinn splittaðist og sáumst við ekkert aftur fyrr en undir Hnúknum sjálfum.
Veður var þá orðið mjög slæmt, fúlviðri var nefnt. Snjóflóðahætta var einnig til staðar, skyggni sama sem ekkert, djúpur snjór og klaki inn á milli.
Sprungur voru sýnilegar og þurfti að fara yfir að minnsta kosti eina. Við þessar aðstæður var gott að hafa tekið smá æfingar í sprungum deginum áður.
Hnúkurinn var toppaður á tímabilinu 10:35 – 11:15.
Stoppað var stutt vegna veðurs og vildi Árni Tryggvason og Árni Árnason koma okkur sem fyrst niður.
Niðurleiðin gekk vel hjá fyrri hóp en ekki allveg jafn vel hjá þeim seinni því öll spor voru horfin í snjó og GPS tæki voru ýmist ekki með korti eða virkuðu ekki sem skildi.
Þarna var gott að hafa reynslubolta eins og Árna Árnason úr Sprettum sem leiddi seinni hópinn áfram með glæsibrag.
Fyrri hópur kom niður kl 16:20 hinn örlítið seinna. Ákveðið var að taka smá lúr í Skaftafelli og bruna svo í bæinn.

Fyrir hönd hópsins viljum við þakka fyrir góða ferð sem hreint út sagt verður að endurtaka að ári.

Esra Þór Jakobsson og Melkorka Jónsdóttir

Fullt af myndum komnar á myndasíðuna 🙂

—————-
Texti m. mynd: Hnúkurinn toppaður 😉
Höfundur: Melkorka Jónsdóttir

Öræfajökull um Hvítasunnuna.

Markmið ferðarinnar er að komast á hnúkinn. (punktur og basta!) Við leggjum af stað úr bænum á föstudag kl. 18 og tjöldum í Skaftafelli þá um kvöldið. Miðað við hvernig jökullinn hefur hegðað sér á seinustu árum skulum við gleyma Virkisjökulsleiðinni og stefnum bara á hina sígildu Sandfellsleið. Svo bara veljum við hvort við förum á tveim jafnfljótum eða skíðum. Ef veðurútliðitð er flott á föstudagskvöldinu (rigningarspá í dag 25.05) þá bara tökum við stuttan lúr í Skaftafelli og leggjum í hann um nóttina og erum þá byrjuð að ganga á milli 4 og 5. Gerum ráð fyrir 7-9 tímum á toppinn og 5-6 tímum niður, þannig að við komum mátulega í kvöldmat. Verði veðrið snautlegt á laugardag, notum við daginn í einhver skemmtilegheit og huggulegt rölt í nágrenni Skaftafells og jafnvel í smá sprungubrölt (til að rifja upp og efla kunnáttuna á því sviði) í Skaftafells- eða Svínafellsjökli. Við höfum allavega tíma fram á aðfaranótt mánudags til að reyna við hnúkinn, þar sem við stefnum á að vera komin í bæinn aftur um kvöldmatarleitið á mánudag. Búnaður: Allur venjulegur búnaður til jöklaferða (ísöxi, belti, línur, prússikbönd og broddar) Frjálst val hvort þið takið eh. meira með ykkur (t.d. hjálmar og klifurdót ef við skyldum taka þannig leikfimi). Munið bara vel eftir að vera vel nestuð og hafa nóg af drykk og mat á leiðinni þar sem gangan er löng. Hafið líka með ykkur góðan hlíðfðarfatnað þar sem það getur orðið kalt efst á jöklinum jafnvel þótt sumarveður sé í byggð. Ef einhverjir vilja fara “sérleiðir” á jökulinn þá bara að láta vita. Fullt af spennandi leiðum er hægt að fara t.d. á jökulinn úr austri, en þær eru tímafrekari og taka þyrfti tillit til “auka aksturs” ef við höfum ekki fullt af bílum.Eflaust verður mikil umferð á jökulinn þessa helgi þar sem Hvítasunnan er orðinn hin sígilda “Hnúkshelgi” í hugum fólks. Verum því viðbúin margmenni og biðröð við toppinn. Áhugasamir skrái sig hér á korkinn í síðasta lagi miðvikudagskvöldið 27. maí. Árni Tryggvason Farastjóri GSM 8625364 arnitr@simnet.is

—————-
Texti m. mynd: Fararstjórinn Árni heldur þétt um sitt fólk.
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson