Slóð hins týnda

Um síðustu helgi var haldið námskeið í sporrakningum í fyrsta sinn hérlendis. Þátttakendur voru átta frá sjö sveitum. Námskeiðið byrjaði á föstudagskvöldið með smá upprifjun, einnig var farið yfir búnað og skipst á hugmyndum. Laugardagurinn var tekinn snemma og hitað upp með því að rekja dagsgamla slóð í frekar grýttum moldarjarðvegi sem endaði í sinu í nágrenni Reynisvatns. Að því loknu voru nokkrar fimm daga gamlar slóðir í hörðum jarðvegi raktar stutta veglengd. Eftir hádegi var haldið upp í Úlfarsfell þar sem nokkrar sporagildrur voru grandskoðaðar t.d. talið hve margir höfðu gengið yfir gildruna og á hvaða leið þeir voru. Einnig voru tekin tvö svæði þar sem við áttum að finna ákveðna slóð en upphafspunkturinn var óþekktur og gekk það ótrúlega vel. Síðan var farið í nágrenni Hafravatns og byrjað á að skoða nokkra athyglisverða tilraunareiti sem leiðbeinandinn SigÓSig hefur komið sér upp og ég ætla ekki að reyna að útskýra hér, en þær snúast að miklu leiti um það hvernig spor eldast og veðrast. Að því loknu skiptumst við á að leggja slóðir fyrir hópinn á dæmigerðum mela og móa svæði og vorum að til að ganga 18. Sunnudagurinn var tekin jafn snemma og laugardagurinn en þá lá leiðinn upp í Mosfelldal. Fyrsta verkefnið var nokkra daga gömul slóð í moldarjarðvegi sem verið er að græða upp, en ég lenti náttúrulega á harða hlutanum sem er erfiðara. Síðað röktum við nýja slóð á sama stað sem krossaði nokkrum sinnum yfir aðrar. Morguninn enduðum við á að grandskoða vegkant og telja hve margir höfðu farið af veginum og út í móa. Eftir hádegi var haldið í Öskjuhlíð, þar var farið í aðkomu að bíl, sporaleit í kringum hann, merkingar og spunnust upp ýmsar umræður í kringum það verkefni eins og reyndar önnur. Vegna fjölda áskorana sýndi SigÓSig okkur hvernig hægt er að steypa spor í gifs við mikla lukku og nokkuð víst að undirrituð á eftir að prófa fljótlega. Á meðan gifsið harðnaði fórum við inn í skóginn í Öskjuhlíð og könnuðum möguleika á sporrakningu í íslenskum skógarbotni. Námskeiðinu lauk síðan í Skógarhlíðinni með umræðu um framtíð og notkunarmöguleika sporrakninga. Helgin var ótrúlega góð æfing, ég er full af hugmyndum, en með rosalegar harðsperrur í lærunum eftir að hafa kropið heila helgi :0)

—————-
Texti m. mynd: Lúða hvað ???
Höfundur: Svava Ólafsdóttir

Slóð hins týnda

Dagana 22.-24. maí 2009 verður haldið sporrakninganámskeiðið "Slóð hins týnda" í Reykjavík og nágrenni. Þetta er í fysta skipti sem slíkt námskeið er haldið hér á landi sem fjallar eingöngu um sporrakningar sem aðferð til að leita að týndu fólki.
Markmið helgarinnar er að fá saman áhugafólk um sporrakningar og æfa af kappi eina helgi. Sigurður Ólafur Sigurðsson, yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í leitartækni og áhugamaður um sporrakningar er umsjónarmaður helgarinnar. Skráning hjá Björgunarskólanum.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson