Björgunaraðgerð á Vífilsfelli.

Fimm manna blandaður hópur undanfara og fjallamanna úr HSSR tók í gær þátt í björgunaraðgerð á Vífilsfelli.
Fullorðinn karlmaður hafði orðið fyrir grjóthruni ofarlega í fjallinu og var nokkuð slasaður, þó ekki í lífshættu.
Þátt í aðgerðinni tóku undanfarar úr öllum björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu auk sjúkraflutningamanna frá SHS, en þeir voru fyrstir á staðinn.
Þar sem þyrlu LHG naut ekki við liðu fjórar og hálf klukkustund frá útkalli, þangað til að sjúklingurinn var kominn í sjúkrabíl.
Flytja þurfti manninn á börum niður brattar skriður og klettahöft og setja upp öryggislínur stóran hluta leiðarinnar.
Þarna kom greinilega í ljós hvað þyrlurnar eru frábær búnaður, njóti þeirra við, en einnig hvað það er mikilvægt að vera með fjallabjörgunarkunnáttuna á hreinu og vel æfða.
Verkefnið gekk í alla staði vel og var samstarfið við sjúkraflutningamenn SHS eins og best verður á kosið.

—————-
Texti m. mynd: Aðgerðin í fullum gangi. Mynd Árni Tryggvason HSSR
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson