Í dag tóku 26 félagar í HSSR þátt í útkalli á Fimmvörðuhálsi þar sem leitað var að erlendum ferðamanni. Alls voru fjórir hópar sendir á vettvang. Útkallið fékk farsælan endi þegar maðurinn fannst heill á húfi upp úr kl. 19.
Þá er gaman að geta þess að í dag mannaði HSSR einnig tvær vaktir í hálendisgæslu. Sú fyrri er vikulöng dvöl fjögurra félaga norðan Vatnajökuls og er sú vakt liður í árlegri og reglubundinni gæslu á hálendinu á vegum aðildarsveita Landsbjargar.
Seinni vaktin er tilkomin vegna aukin álags á umferð að fjallabaki eftir að þjóðvegur 1 fór í sundur við Múlakvísl. Fjórir félagar í HSSR hafa verið þar í þrjá daga og aðstoðað ferðafólk við að komast leiðar sinnar. Voru þeir á því að mörgum ferðalangnum hefði ekki leiðst þessi útúrdúr, enda er farið um afar fallegt landssvæði.
—————-
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson