MODEX 2013

Æfingu Alþjóðasveitarinnar í Danmörku að ljúka

MODEX 2013

Félagar í ÍA við störf sín í æfingunni MODEX 2013 sem haldin var í Danmörku í janúar 2013.

Æfingu Alþjóðasveitarinnar í Danmörku er nú að ljúka. Sveitin er komin í sk. ‘stand-down’ stöðu og meðlimir byrjaðir að týna saman búnað, þurrka verkfæri og skipuleggja heimför.

Æfingin hefur gengið vel síðasta sólarhringinn. Reynt hefur á marga mismunandi þætti eins og viðbrögð við slysi á björgunarmanni, samstarfi við tékkneska vettvangs spítalann og þátttöku í verkefnum með bresku sveitinni. Sveitin sinnti í dag fjórum mismunandi verkefnum í einu þ.e. leit í rústum, leit að flugvél sem hrapaði, hundaleit og mat á tjóni á öðrum vettvangi. Þannig hafa t.d. björgunarmenn, stjórnendur, fjarskiptafólk og OSOCC hópur fengið margvíslega þjálfun við fjölbreytt verkefni og mikla samhæfingu við marga aðila. Allt er þetta gert undir vökulum augum eftirlitsaðila frá Evrópusambandinu og þjálfara frá æfingastjórn. Þessir aðilar koma reglulega til að fylgjast með og spyrja fólk hvaða ákvarðanir hafa verið teknar og af hverju. Þetta hjálpar okkur til að skoða gagnrýnið okkar störf og meta hvað við erum að gera vel og hvað mætti bæta.

Það hefur hlýnað töluvert, nú komið upp fyrir frostmark, svo að fólk er slakara en búðirnar eru að breytast í drullusvað þannig að hitinn hefur sína kosti og galla. Búðahópur hefur venju samkvæmt framreitt dýrindis mat þannig að sveitin er vel haldin. Svo er það bara heimferðardagur á morgun en búðahópur er er væntanlegur á þriðjudag.