Author Archives: Ólafur Jón Jónsson

Sögulegar minjar

Í gær barst sveitinni ábending um að gamall fjarskiptabúnaður merktur henni væri í endurvinnslugámi og biði þess að verða tekinn í sundur í frumeindir sínar. Brugðist var skjótt við og í snaggaralegri aðgerð var búnaðinum bjargað úr gámnum og komið fyrir á efstu hæð á Malarhöfðanum þar sem nú er að finna vísi að minjasafni HSSR.

Þetta er þörf áminning um að okkur ber að gæta að gömlum verðmætum því þótt ekki sé svona búnaður dýr í krónum, þá er hann ómetanlegur sem sögulegar minjar um starfsemi sveitarinnar í öll þau 83 ár sem hún hefur verið starfrækt. Því skorum við á lesendur að kanna hvort svona dýrgripir leynist innan seilingar hjá þeim og ef svo er, koma þeim þá til sveitarinnar svo hægt sé að skrá þá og setja í minjasafnið. Allur búnaður er vel þeginn og ekki hvað síst persónubúnaður sem getur varpað ljósi á hvernig björgunarmenn hafa verið búnir í störfum sínum í gegnum tíðina. Þá eru hvers kyns skjöl og ljósmyndir afar vel þegin.

Hafið samband með tölvupósti í netfangið hssr@hssr.is eða hringið í síma 577-1212 ef frekar upplýsinga er þörf.

Bakhjarlar sveitarinnar

Bakhjarlar HSSR

Þriðjudaginn 19. maí fékk Hjálparsveit skáta í Reykjavík góða heimsókn, en þá tóku á henni hús nokkrir fulltrúar bakhjarla hennar, fengu kynningu á starfseminni og þáðu veitingar. Þetta er í fyrsta skipti sem Hjálparsveit skáta í Reykjavík veitir viðurkenningar af þessu tagi, en ljóst er að eftirleiðis verður þetta árlegur viðburður í byrjun sumars.

Lengi hefur verið vitað að framlag vinnustaða til útkallsmála er vanmetið, en án þess sveigjanleika sem björgunarfólk fær þar væri rekstur útkalla mun erfiðari en ella. Því óskaði stjórn HSSR eftir því að félagar myndu tilnefna þá vinnustaði sem þeir teldu að ættu að fá viðurkenningu og eru þeir í ár eftirfarandi:

  • BYKO
  • Fjallakofinn
  • Habilis ehf.
  • LEE rafverktakar ehf.
  • Lýsi hf.
  • Malbikunarstöðin Höfði hf.
  • Prentsmiðjan Oddi
  • Rafsvið sf.
  • RST Net ehf.
  • Stormur ehf.
  • TM Software ehf.
  • VSB verkfræðistofa ehf.

En það eru ekki bara vinnustaðirnir sjálfir sem eiga góðar þakkir skildar því iðulega axla samstarfsfélagar björgunarfólks verkefni þeirra þegar útkall berst. Það er ómetanlegt og sýnir vel samhug þjóðarinnar þegar á reynir.

Stjórn sveitarinnar þakkar kærlega fyrir þetta framlag vinnustaða og samstarfsfólks, en með því eru þessir aðilar í raun órjúfanlegur hluti af útkallsferlinu.

Viðurkenning 2015

Fyrirlestraröð á leitartæknisviði

Fyrirlestrakvöld leitartæknihópa á svæði 1

Í kvöld verður haldin fyrirlestraröð um málefni sem snerta leitartækni í húsnæði HSSR að Malarhöfða 6 og hefst dagskráin kl. 19. Á dagskrá eru fimm erindi:

  • Almennar ábendingar frá tæknideild RLS
  • Hagnýt notkun dróna í björgunarstörfum
  • Notkun snjalltækja í aðgerðum
  • Leitarhundar
  • Almennt um leitartæknimál

Allir félagar á svæði 1 eru velkomnir hvort sem er fullgildir eða nýliðar.

Flugeldagjafakort

Gamlárskvöld í Reykjavík

Við hjá Hjálparsveit skáta í Reykjavík viljum benda á gjafakort fyrir flugelda sem góða jólagjöf fyrir starfsfólk, hvort sem er aðalgjöf eða veglega viðbót við jólapakkann. Einnig hefur sú hefð verið að skapast á undanförnum árum að fyrirtæki gefi starfsfólki sérstakan nýársglaðning í formi gjafakorta fyrir flugelda á milli jóla og nýs árs. Gjafakortin bjóðast í mismunandi fjárhæðum frá 5-25 þúsund krónur, en einfalt er að sníða þær upphæðir að þörfum hvers og eins, sé þess óskað.

Flugeldasalan er stærsta einstaka fjáröflunarleið björgunarsveitanna og því njóta allir góðs af þegar flugeldar eru gefnir. Þess má geta að á síðastliðnu ári var Hjálparsveit skáta í Reykjavík boðuð út 33 sinnum í hin margvíslegustu verkefni. Samtals tóku 99 björgunarmenn þátt í þessum útköllum og vörðu til þeirra rúmlega 2.500 klukkustundum eða sem nemur tæplega 320 vinnudögum í sjálfboðavinnu. En til þess að þetta sjálfboðaliðastarf geti þrifist og dafnað þarf að fjármagna kaup og rekstur á hvers konar sérhæfðum tækjabúnaði og þar vegur sala flugelda þungt.

Flugeldarnir hafa fylgt þjóðinni um áraraðir og vilja flestir halda vel í þessa gömlu og góðu hefð. Því er gjafakort frá hjálparsveitinni kærkominn glaðningur í jólapakkanum frá fyrirtækinu sem hjálpar til við að fjármagna þetta starf hjálparsveitanna sem sannað hefur gildi sitt ótal sinnum í gegnum tíðina.

Líttu inn á hssr.is/gjafakort og kynntu þér hvernig þú getur pantað gjafakort fyrir starfsfólk þitt. Þar finnurðu aðgengilegt pöntunarform og þegar pöntun hefur borist munum við sjá um að koma gjafakortunum til þín.

Hafðu endilega samband með pósti í netfangið flugeldar@hssr.is eða hringdu í 841-3040 ef þig vanhagar um frekari upplýsingar.

Vinir HSSR, stofnfundur

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík
boðar til fundar miðvikudaginn 17. sept. n.k. kl 20:00,
sem haldinn verður í húsnæði sveitarinnar að Malarhöfða 6.

Tilefni fundarins er stofnun:

Vina HSSR
(Hollvinasamtaka Hjálparsveitar skáta í Reykjavík)

Vorið 2013 ákvað stjórn HSSR að hefja vinnu sem miðaði að því að ná saman á einn stað nöfnum sem flestra aðila sem einhvern tíma hafa starfað innan vébanda HSSR.

Stjórn sveitarinnar vill með þessu endurnýja sambandið við gamla félaga sveitarinnar og stuðla að endurnýjuðum kynnum þeirra með það að markmiði að úr geti orðið einhverskonar samtök eða hópur eldri félaga sem getur stutt við starfsemi HSSR með margvíslegu móti.

Til að koma þessari vinnu af stað voru fengnir þrír ‘gamlir’ félagar HSSR, þeir Benedikt Þ. Gröndal, Laufey Gissurardóttir og Eggert Lárusson, sem ásamt ýmsum öðrum félögum HSSR hafa unnið að undirbúningi málsins.

Undirbúningsnefndin hefur unnið talsvert starf við að afla upplýsinga í eldri félagaskrám sveitarinnar. Nú er búið að ná saman milli 600-700 nöfnum eldri félaga. Þar af er um helmingur þeirra enn skráður á félagalista HSSR. Stefnt er að því að ná til sem flestra eins og kostur er.

Fyrst um sinn hefur verið miðað við að ná til þeirra sem hafa undirritað eiðstaf sveitarinnar, en sá siður hefur verið viðhafður frá árinu 1966.

Fyrir þann tíma eða milli 1962 þegar sveitin var endurreist og 1966 voru m.a. svokallaðir boðunarflokkar hinna 8 deilda Skátafélags Reykjavíkur. En ýmsir sem þar störfuðu undirrituðu eiðstafinn eftir 1966, en aðrir gerðu það ekki af ýmsum ástæðum. Hugmyndin er að ná til þessa hóps síðar, sem og þeirra sem störfuðu í sveitinni fyrir 1962.

Stefnt er að því að samtökin verði málefnamiðuð sem taki að sér ýmiskonar vinnu við málefni sem hinir starfandi félagar eru ekki að sinna, en koma starfsemi HSSR til góða.

Stjórn HSSR skipar samtökunum stjórn fyrsta starfsárið, en síðan verður kosin stjórn á næsta aðalfundi samtakanna. Stjórnin verði ábyrg gagnvart stjórn HSSR og gefur henni stutta skýrslu um starfsemi samtakanna í lok hvers starfsárs.

Undirbúningshópurinn telur, að það sé líklegt til árangurs að stofnaðir verði vinnuhópar eða flokkar um hvert málefni og að hver hópur velji sér talsmann eða foringja. Heppilegur fjöldi í hverjum hóp er 5-8 félagar. Talsmenn/foringjar hvers verkefnishóps gefa stjórn hollvinasamtakanna skýrslu í lok árs.

Undirbúningshópurinn telur áríðandi að halda væntanlegri starfsemi eins einfaldri og mögulegt er, en fyrst og fremst að hafa gaman af og reyna eftir megni að endurupplifa ‘ævintýrið’ að vera félagi í hjáparsveit og gera í leiðinni ‘gömlu sveitinni’ sinni eitthvert gagn.

Undirbúningshópurinn telur að það séu í raun fá takmörk fyrir því hverskonar verkefni eða málefni svona samtök gætu unnið að, svo fremi að þau styrki starfsemi HSSR og þá um leið þjóðfélagsins alls.

Það er ekki ætlunin að samtökin hlutist í mál og verk sem starfandi félagar sinna. Þó eingöngu ef stjórn sveitarinnar eða tilteknir hópar innan HSSR óska eftir aðstoð samtakanna við tiltekin mál.

Meðal þeirra mála sem samtökin gætu unnið að er t.d.:

  • Viðhald húsnæðis, lóðar eða eigna HSSR.
  • Skrásetning sögu HSSR og æviatriða einstaklinga tengdum HSSR.
  • Minjasöfnun, varsla og skrásetning muna HSSR.
  • Söfnun og skrásetning mynda úr starfi HSSR.
  • Undirbúningur og umsjón fræðslufunda um málefni HSSR fyrir ‘Vini HSSR’.
  • Öflun nýrra styrktaraðila fyrir HSSR.
  • Umsjón með fræðslu- og skemmtiferðum fyrir ‘Vini HSSR’.
  • Þátttaka í ýmsum fjáröflunum fyrir HSSR.
  • Undirbúningur og umsjón með t.d. reglulegu kaffi eða ‘brunch’ fyrir eldri félaga.
  • Önnur málefni sem tengjast starfi HSSR.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík bíður alla eldri félaga sveitarinnar velkomna á fundinum, og vonar að þeir geti átt gott samstarf með gömlum og nýjum félögum innan HSSR, en á fundinum verður boðið upp á veitingar.

112 dagurinn er haldinn um allt land 11. febrúar

Að þessu sinni verður sjónum beint að öryggi í vetrarferðum í víðu samhengi, s.s. í þéttbýli, á almennum vegum og utan alfaraleiða.
Lagt er mikil áhersla á að fólk hugi betur að öryggi í ferðalögum að vetri til, vandi betur undirbúning og geri ferðaáætlun, til dæmis á:  www.safetravel.is

Í tilefni 112 dagsins heldur Hjálparsveit skáta í Reykjavík opið hús að Malarhöfða 6 þriðjudaginn 11. febrúar kl. 20 – 22. 

Verið velkomin að kíkja við og fræðast um starf hjálparsveitarinnar. 140211-112-dagurinn-einfalt

Merki HSSR

Ný stjórn HSSR fyrir starfsárið 2013-14

Á aðalfundi HSSR, sem haldinn var 12. nóvember, var ný stjórn sveitarinnar fyrir starfsárið 2013-14 kosin og skipa hana því eftirtaldir einstaklingar næsta árið:

  • Haukur Harðarson, sveitarforingi
  • Daníel Másson
  • Einar Ragnar Sigurðsson
  • Melkorka Jónsdóttir
  • Sigþóra Ósk Þórhallsdóttir
  • Tómas Gíslason
  • Þorbjörg Hólmgeirsdóttir

Félagar í HSSR óska stjórnarfólki velfarnaðar í starfi.

Útkall F3 grænn

Útkall F3 grænn, framhald leitar að erlendum ferðamanni

Útkall F3 grænnLaugardaginn 5. október tóku 12 félagar frá HSSR þátt í áframhaldi leitar að týndum ferðamanni við Landmannalaugar. Til að nýta dagsbirtuna sem best lögðu þeir af stað um fimm leytið að morgni og voru komnir heim skömmu eftir kvöldmat. Alls tóku um 100 manns af suður- og suðvesturlandi þátt í þessari aðgerðalotu.

Leit hefur enn engan árangur borið.

Útkall F3 grænn

Útkall F3 grænn, leit að týndum ferðamanni

Útkall F3 grænnRúmlega 20 félagar frá HSSR hafa tekið þátt í leit að bandarískum ferðamanni sem nú stendur yfir á svæðinu við Hrafntinnusker og Álftavatn. Veður hefur verið ágætt og samtals hafa um 150 björgunarmenn tekið þátt í aðgerðinni. Leit verður haldið áfram fram á kvöld, en þá verður staðan metin í samráði við lögreglu.