Avalanche operations Level 1

Frá Róberti Halldórssyni:

Síðastliðinn vetur lagði ég land undir fót til Kanada að sækja mér þekkingu í snjóflóðafræðum.  Kanada varð fyrir valinu þar sem þeir eru leiðandi í heiminum í snjóflóðafræðum og rannsóknum á því sviði og lá það vel við að læra þar sem hlutirnir voru fundnir upp.


Kanadísku snjóflóðasamtökin (Canadian Avalanche Assosiation eða CAA) hafa verið að störfum í 20 ár og verið leiðandi í snjóflóðarannsóknum, snjóflóðahættumati og snjóflóðaspám fyrir vegagerð og öryggi almennings. Snjóflóðastofa eða Canadian Avalanche Center var svo sett á fót árið 2004 sem vettvangur til að sameina rannsóknir, kennslu og halda utan um upplýsingar í fræðigreininni. Stofnunin er ekki ríkisfyritæki og er ekki rekin með gróðasjónarmiði heldur til þess að auka öryggi og þekkingu almennings og halda þekkingu og kennslustöðlum uppi á háu stigi.

Hvað er Level 1?

Rýnt í snjóinn.

Rýnt í snjóinn.

Avalanche Operations Level 1 er 7-8 daga námskeið í snjóflóðafræðum. Það skiptist í 40% fræðilegan hluta sem er í kennslustofu þar sem farið er í saumana á veðurfræði, uppbyggingu snjóalaga, kristallabyggingu, hættumat og snjóflóðalandslag. Restin af námskeiðinu, eða 60%, er utandyra þar sem maður lærir „hands on“ vinnu við að skoða snjóalög, gera snjóprófíla, framkvæma stöðuleikapróf, meta snjóflóðahættu, skoða snjókristalla með stækkunargleri og leiðarval.

Samhliða þessu er mikil áhersla lögð á skráningu á öllu því sem þú sérð, finnur og öllum breytingunum sem eiga sér stað. Mér er það í fersku minni þegar ég vakna í kringum 06:00 á morgnanna nær dauða en lífi. Ég fatta loksins að ég er á lífi þegar ég er búinn að renna niður ilmandi kaffibolla, smeygja mér í skóna og fer út í fimbulkuldann til þess að gera veðurmælingar. Hitastig, rakastig, nýfallinn snjór, hve mikið snjórinn er búinn að setjast og svona mætti lengi telja. Á hverjum degi, morgna og kvölds var hnoðast í þessu og til hvers?

Skipulögð vinnubrögð.

Skipulögð vinnubrögð.

Þegar maður eyðir heilli viku með nefið í snjónum, pælir í veðrinu allan daginn og er að hugsa um snjóinn þá er eins og þetta smelli allt í einu. Snjóflóð eru númer 1, 2 og 3 tengd veðri, og þá helst breytingum í veðri. Með skipulögðum vinnubrögðum og skráningu fer maður smám saman að öðlast skilning á því afhverju snjóflóð falla og það sem er mikilvægast er…hvar og hvenær er það líklegast.

Hvernig nýtist þetta nám fyrir björgunarsveitarmann?

Það sem hefur einna helst verið gagnrýnt við þessi námskeið hérlendis er að námskeiðið er ekki næganlega björgunarmiðað. Þetta sé hnitmiðað námskeið fyrir leiðsögumenn sem ætli sér í skemmtiferð með fólk á skíði. Það er jú að vissu leiti rétt, en ein af forkröfum námskeiðsins er að vera búinn að tileinka sér óaðfinnanlega tækni til þess að grafa upp tvo sjúklinga með snjóflóðaýli af 70 cm dýpi á svæði sem er 40 m x 40 m á undir 5 min.

Próf í snjóflóðabjörgun

Próf í snjóflóðabjörgun

Áður en leit getur hafist er tekið stutt munnlegt próf þar sem björgunarmaður leiðir kennara í gegnum skipulagningu og öryggi á vettvangi, talstöðvarsamskipti við utanaðkomandi björgunaraðila, björgun og örugga flutningsleið af svæðinu. Skylda er að vera búinn með Avalanche Skills Training 1 sem er námskeið í snjóflóðabjörgun og ennfremur er mælst til að búið sé að taka Avalanche Skills training 2 sem er ítarlegra námskeið í þeim efnum.

Þegar kemur að útkalli að vetrarlagi á Íslandi er öryggi björgunarmanna það mikilvægasta sem við þurfum að hugsa um. Okkar hlutverk sem björgunarmenn er oftar en ekki að mæta á staðinn, skipuleggja björgun, hvar er best að fara upp og niður og á sem öruggastan hátt. Eftir að hafa rýnt í snjókristallana allan þennan tíma með nefið fullt af snjó og áttað sig á því hvernig veðrið spilar með snjóinn á björgunarmaður auðveldara með að taka ákvarðanir hvað varðar leiðarval björgunarhópa hvort sem það er í fjallabjörgun, leit eða snjóflóðabjörgun. Þessi þekking er gríðarlega mikilvæg til að koma í veg fyrir frekari slys á björgunarfólki og allir komi heilir heim eftir langt útkall.

Róbert Halldórsson