BANFF fjallamyndahátíð – myndir um jaðarsport

Hin árlega BANFF fjallamyndahátíð verður haldin í sal Ferðafélags Íslands dagana 19. og 20. maí næstkomandi. Sýndar verða stuttmyndir um afrek og ævintýri fólks sem stundar ýmis jaðarsport eins og fjallamennsku, klifur, snjóbretti, fjallaskíði, fjallahjól, BASE-jumping og ýmislegt fleira. Myndirnar eiga það sameiginlegt að fjalla um samspil fólks við náttúruna þar sem adrenalín og góð skemmtun er sjaldan fjarri.

Það er óhætt að segja að BANFF fjallamyndahátíðin sé orðin að ómissandi viðburði fyrir stóran hóp fólks sem bíður hátíðarinnar með óþreyju ár hvert. Íslenski alpaklúbburinn hefur fært Íslendingum BANFF fjallamyndahátíðina nokkur undanfarin ár en enginn annar viðburður á Íslandi sameinar jafnmarga afreks- og áhugamenn um jaðaríþróttir undir sama þaki. Í ár er hátíðin haldin í samstarfi við 66° Norður.

– Sýningarkvöldin verða tvö og mismunandi myndir sýndar hvort skipti.
– Hægt er að kaupa miða á bæði kvöldin í forsölu fyrir aðeins 2000 krónur á www.isalp.is.
– Aðgangseyrir við innganginn er annars 1500 krónur hvort kvöld.
– Sýnishorn úr myndum BANFF fjallamyndahátíðarinnar má sjá á slóðinni http://www.youtube.com/watch?v=IAMbREbCz5E

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson