Category Archives: Fréttir

Flugeldasala 2013

Sunnudaginn 29. desember verða sölustaðir okkar: Malarhöfði 6, Spöngin, Mjóddin, Bílabúð Benna, Grafarholt, Norðlingaholt og Skjöldungar opnir frá kl. 10 – 22.

Við tökum vel á móti ykkur.

Hér er Boli á flugeldavaktinni í Norðlingaholti (Ljósm. Julien Oberle).
1498871_10152071686439284_1105951677_o

 

Flugeldasala HSSR 2013

Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna fara af stað af fullum krafti laugardaginn 28. desember kl. 14:00.

Í ár er Hjálparsveit skáta í Reykjavík með 7 sölustaði á eftirfarandi stöðum: Risaflugeldamarkaður á Malarhöfða 6, Spöngin, Bílabúð Benna, Mjóddin, Grafarholt, Norðlingaholt og hjá Skjöldungum í Sólheimum.

Líttu við á einhverjum af flugeldamörkuðum okkar og spjallaðu við björgunarsveitarfólkið sem þar er og veit flest um flugelda.
Þú færð fyrsta flokks þjónustu, frábæra flugelda og styður við bakið á björgunarsveitinni þinni í leiðinni.

flugeldarFB612x612

Aðalfundur HSSR 2013

Hjálparsveit skáta í Reykjavík
Fundarboð – aðalfundur 12. nóvember 2013

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík boðar til aðalfundar þriðjudaginn 12. nóvember næstkomandi. Fundurinn verður haldinn að Malarhöfða 6 og hefst klukkan 20:00.

Dagskrá fundarins verður með hefðbundnum hætti:

  1. Sveitarforingi setur fundinn og stýrir kosningu fundarstjóra.
  2. Fundarstjóri skipar fundarritara.
  3. Inntaka nýrra félaga.
  4. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu um starf sveitarinnar.
  5. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga HSSR.
  6. Skýrslur nefnda.
  7. Lagabreytingar.
  8. Kosningar.
  9. Önnur mál.

Til þess að fundur geti hafist þarf þriðjungur fullgildra félaga að mæta. Við biðjum félaga því að mæta tímanlega.

Fullgildir félagar og nýliðar eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðunni.

Skrá yfir fullgilda félaga má finna á skjalasvæði HSSR.

Stjórn Hjálparsveitar skáta í Reykjavík.

Neyðarkallinn 2013

Sala á Neyðarkallinum 2013 hefst nú á fimmtudaginn. Að þessu sinni er hann björgunarsveitarkona með fyrstu-hjálpar búnað. Við hvetjum alla til að sýna stuðning í verki og kaupa kallinn af einhverju af því fjölmarga björgunarsveitafólki sem verður að selja næstu daga.

Eins og fyrr kostar stykkið 1500 krónur og fer í uppbyggingu og þjálfun björgunarsveitafólks.

Neiðarkona

 

SAREX 2013

Sunnudaginn 1. september fer 8 manns úr búðarhópi til Grænlands til að taka þátt í æfingunni SAREX2013. Æfingin snýst um samhæfingu skipa og flugvéla í leitar- og björgunaraðgerðum samkvæmt Arctic Concil SAR samkomulaginu frá maí 2011. Æfð verða viðbrögð og aðstoð við skemmtiferðaskip í neyð á norðurheimskautssvæðinu. Hlutverk hópsins er að setja upp búðir í Meistaravík og á eyjunni Elle sem stuðningur við medical teymi frá Danmörku og Grænlensku/Dönsku lögreglunni. Er þetta annað árið í röð sem búðarhópur tekur þátt í samskonar æfingu á Grænlandi.

Hópurinn flýgur til Grænlands með bandarískri herflutningavél ásamt fjarskiptahóp frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, mönnum frá SHS og SL samtals 16 mans. Á mánudaginn er ráðgert að hluti hópsins fljúgi áfram með þyrlum til eyjarinnar Elle og setji upp búðir þar. Ráðgert er að búðarhópur flugi heim frá Grænlandi föstudaginn 6. september.

Á æfingunni taka einnig þátt hópur falhlífastökkvara frá FBRS og 25 björgunarsveitarmenn frá 5 sveitum sem leika „skipsbrotsmenn“ þ.e. eru 5 úr sjúkrahópi HSSR. Sjúkrahópurinn flýgur til Grænlands 3. september.

Flugeldar

Flugeldasýning á Menningarnótt

FlugeldarUndanfarna daga hafa skotmeistarar HSSR staðið í ströngu við undirbúning flugeldasýningarinnar á Menningarnótt. Í ár verða nokkrar breytingar gerðar á framkvæmd sýningarinnar, t.d. hvað varðar umfang hennar og því ættu áhorfendur að fá enn meira fyrir sinn snúð en venjulega. Undirbúningur svona sýningar útheimtir mikla vinnu og hafa félagar í HSSR staðið vaktina síðan 16. ágúst. Uppsetning flugeldasýningar af þessari stærðargráðu er mikil nákvæmnisvinna, enda þarf öll framkvæmd að ganga snurðulaust fyrir sig svo útkoman verði góð. Sem betur fer hefur sveitin mikla reynslubolta í sínum röðum sem geta tryggt áhorfendum frábæra skemmtun.

Sýningin, sem er í boði Vodafone, hefst kl. 22:45 við Arnarhól og eru áhugasamir hvattir til þess að mæta tímanlega svo þeir geti notið hennar til fullnustu. Hægt er að lesa meira um framkvæmd sýningarinnar á vef Vodafone.

Langar þig til að starfa með björgunarsveit?

Kynningarfundur nýliða í Hjálparsveit skáta í Reykjavík verður þriðjudag 3. september í húsnæði sveitarinnar að Malarhöfða 6 kl. 20:00. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í starfi björgunarsveitar, ert 18 ára eða eldri, í góðu líkamlegu og andlegu formi, átt gott með að vinna í hópi en getur líka sýnt frumkvæði, þá gæti þátttaka í HSSR verið eitthvað fyrir þig.

Þjálfunin tekur eitt og hálft ár þannig að nýliðar sem hefja þjálfun núna í haust geta gengið inn í sveitina í mars 2015.

Fyrsta námskeið vetrarins fyrir nýliða er námskeið í ferðatækni og rötun sem verður haldið að Úlfljótsvatni helgina 13. til 15. september.

Allir sem áhuga hafa eru velkomnir á kynningarfundinn.

Hálendisvakt 2013

Á morgun halda fyrstu hópar til starfa á hálendisvakt björgunarsveita en hún mun standa út ágúst mánuð. Einnig ætlar fjöldi sjálfboðaliða að standa vaktina á ÓB og Olís stöðvum víða um landið og afhenda fræðsluefni og hvetja til ábyrgra ferðalaga í sumar.

Stuðið hefst kl. 16 og vaktin verður staðin til 20 eða svo lengi sem birgðir endast. Ferðalöngum verða afhentir litlir pokar sem má nota sem ruslapoka í bílinn. Í þeim verður Safetravel harmonikuspjald, 112 póstkort, bæklingur frá Sjóvá, framrúðuplástur og TRYGGJÓ 🙂

Pokanum fylgja svo góð ráð ef óskað er eftir og hvatning til ábyrgra ferðalaga í sumar. Þetta hefur tekist vel síðustu árin og vonandi verður svo líka núna.

Olís mun bjóða afslátt af eldsneyti auk þess sem hluti innkomu rennur til félagsins. Þeir munu auglýsa daginn vel og verða m.a. með netleik þar sem spurt verður um undirbúninga ferðalaga. Sjóvá verður með prentauglýsingar og auglýsingar i útvarpi og við vonumst til að detta inn í sem flesta fjölmiðla.

Klukkan 16:30 leggja fyrstu hópar af stað til fjalla frá Olís í Norðlingaholti og munu formaður félagsins og framkvæmdastjóri fylgja þeim fyrstu metrana. Þangað verður einnig stefnt fjölmiðlamönnum en einnig verða staðarmiðlar hvattir til að heimsækja stöðvar í sínu héraði.

HSSR tekur sem áður þátt í Hálendisvaktinni og munu tveir hópar frá okkur manna stöðvar Norðan Vatnajökuls og á Fjallabak sitthvora helgina í kringum verslunarmannahelgi.

WOW Cyclothon 2013

Þessa dagana fer fram hjólreiðakeppnin WOW Cyclothon, en þar er hjólað “hringinn” í miðnætursólinni.

HSSR á fjóra fulltrúa í fleiri en einu liði, en þar eru Benedikt Ingi Tómasson, Kjartan Þór Þorbjörnsson, Steinar Þorbjörnsson og Stefán Örn Kristjánsson.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem vinna að mannréttindum barna með því að vera málsvari þeirra, með fræðslustarfi, innlendum og erlendum verkefnum og í gegnum neyðaraðstoð.
Helstu áherslur Barnaheilla er að standa vörð um réttindi barna, baráttu gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að rödd barna heyrist betur í íslensku samfélagi.

Hægt er að fylgjast með stöðu keppenda á þessari síðu.

Tenglar á áheita og upplýsingasíður liðanna:
BikeCompany
Össur Racing