Category Archives: Myndasafn

Fjallamennska 2

Tveir hópar rétt undir hryggnum stuttu fyrir niðurferð.

Tveir hópar rétt undir hryggnum stuttu fyrir niðurferð.

Nú um helgina hélt vaskur hópur nýliða ásamt undanförum og undanrennum upp í Skarðsheiði að nema fjallamennskufræði. Lagt var af stað af Malarhöfðanum rétt fyrir dagrenningu á laugardeginum.

Stefnan var á skálina vestan við Skessuhorn og fann hópurinn ákjósanlegt tjaldstæði við Katlana rétt undir Horninu. Þar var slegið upp tjaldbúðum og svo haldið í ísaxarbremsuæfingar og broddagöngu. Aðstæður voru með besta móti; gott veður og glerhart hjarn.

Allir hópar voru svo komnir aftur niður rétt fyrir sólsetur. Fólk kom sér fyrir í tjöldum sínum, eldaði kvöldmat og hélt sátt og satt í háttinn eftir langan dag.

Continue reading

Ísklifurfestival á Ísafirði

09Síðustu helgi fóru 4 meðlimir HSSR á Ísklifurfestival ÍSALP sem haldið var á Ísafirði. Reykur 7 var fenginn að láni og lagt af stað á föstudagseftirmiðdegi kl. 17.30. Með í för voru einnig þrír frá HSSK og gist var í heimili Björgunarfélags Ísafjarðar.

Við fórum snemma á fætur á laugardagsmorgni og hittum fleiri meðlimi ÍSALP í Dýrafirði um kl. 8.30. Þaðan var gengið inn í Eyrardal en þar er mikið af óklifruðum ísleiðum. Við völdum góðan stað í dalnum og gengum upp langa og bratta snjóbrekku til þess að komast í ísinn. Lítið sem ekkert hefur verið klifrað þarna og því voru margar „first ascent“ farnar þennan daginn. Ottó og Katrín klifruðu ónefnda ca. WI4 ísleið, fulla af grýlukertum og regnhlífum. Danni, Charlotte og félagar HSSK æfðu sig í annarri 2-4 gráðu ísleið, eftir getustigum. Um kvöldið hittust ísklifrarar á Bræðraborg þar sem þeir  gæddu sér á æðislegri kjötsúpu og ræddu ævintýri dagsins fram og aftur.

Continue reading

Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Isavia styrkir hjálparsveitir

Styrkur frá ISAVIA móttekinn

Félagar í HSSR taka á móti styrk frá ISAVIA.

Á nýliðnu ári veitti stjórn ISAVIA nokkrum hjálparsveitum fjárstyrk til að efla viðbragð sveitanna í hópslysum, þar á meðal í flugslysum. Síðastliðinn föstudag bauð ISAVIA þremur sveitum af höfuðborgarsvæðinu í móttöku þar sem fjárveitingin og tilgangur hennar var kynnt.

Hjálparsveit skáta nýtti styrkinn til kaupa á fjórum stórum töskum til að sameina allan neyðarbúnað sveitarinnar á einn stað í hverju farartæki. Jafnframt var innihald þeirra endurnýjað og er þar nú að finna m.a. bráðaflokkunartösku, nýja súrefniskúta, blóðþrýstingsmæla, reykbombur og neyðarblys og fjölmargt fleira, sjá einnig frétt frá maí 2012. Töskurnar eru handhægar og má með örfáum handtökum breyta þeim í bakpoka. Auðvelt er að grípa sjúkrabúnaðinn með sér, að hluta eða í heild. Einnig sýndi sveitin áfyllingartöskur sem voru keyptar. Þar er á einum stað búnaður til að fylla á sjúkratöskur björgunarmanna en hratt getur gengið á birgðir í litlum sjúkratöskum þeirra ef sinna þarf mörgum slösuðum.

Continue reading

Fjallamennska 1 árið 2012

Fjallamennska 1 var haldin þetta árið á Fimmvörðuhálsi. Þriðjudaginn 13. nóvember mættu nýliðarnir á undirbúningskvöld á M6 þar sem farið var yfir helstu efnisatriði og rennt yfir búnaðarlistann, hnútar kenndir, sig æft og lánsbúnaði útdeilt.

Að kvöldi föstudagsins 16. var svo haldið austur að Skógum og upp slóðann á Fimmvörðuháls. Færið var nokkuð þungt en Eiríkur Odds náði þó að koma Ásnum um tveimur kílómetrum að vaðinu þegar ákveðið var að halda áfram fótgangandi. Þaðan var svo þrammað í nöprum norðankalda og hressilegum skafrenningi upp að nýja Baldvinsskála þar sem gist var um nóttina.

Morguninn eftir var spáð allhvössum vindi sunnan við Hálsinn og því var ákveðið að halda norðuryfir, reyna að fara yfir helstu atriði námskeiðsins á leiðinni og ná niður í Bása um kvöldið. Veður lægði eilítið eftir morgunmat en batnaði mjög þegar yfir hálsinn var komið og Tindfjallajökull og Mörkin blöstu við í allri sinni dýrð. Sunnudagsmorguninn héldu hóparnir upp að Réttarfelli og hlíðunum ofan Bása í mikilli veðurblíðu til að fara yfir þau efnisatriði sem ekki náðist að klára daginn áður. Þrátt fyrir heldur lítinn og lausan snjó fengu nýliðarnir nasaþefinn af þessum helstu atriðum fjallamennsku.

Námskeiðið varð því að öllu meiri fjallamennskuferð en gert hafði ráð fyrir og stóðst hópurinn þetta verkefni með prýði.

Continue reading