Ísklifurfestival á Ísafirði

09Síðustu helgi fóru 4 meðlimir HSSR á Ísklifurfestival ÍSALP sem haldið var á Ísafirði. Reykur 7 var fenginn að láni og lagt af stað á föstudagseftirmiðdegi kl. 17.30. Með í för voru einnig þrír frá HSSK og gist var í heimili Björgunarfélags Ísafjarðar.

Við fórum snemma á fætur á laugardagsmorgni og hittum fleiri meðlimi ÍSALP í Dýrafirði um kl. 8.30. Þaðan var gengið inn í Eyrardal en þar er mikið af óklifruðum ísleiðum. Við völdum góðan stað í dalnum og gengum upp langa og bratta snjóbrekku til þess að komast í ísinn. Lítið sem ekkert hefur verið klifrað þarna og því voru margar „first ascent“ farnar þennan daginn. Ottó og Katrín klifruðu ónefnda ca. WI4 ísleið, fulla af grýlukertum og regnhlífum. Danni, Charlotte og félagar HSSK æfðu sig í annarri 2-4 gráðu ísleið, eftir getustigum. Um kvöldið hittust ísklifrarar á Bræðraborg þar sem þeir  gæddu sér á æðislegri kjötsúpu og ræddu ævintýri dagsins fram og aftur.

Á sunnudagsmorgun var heldur meiri þreyta í fólkinu en daginn á undan svo úr varð að einungis fjórir úr okkar hóp lögðu af stað. Plön dagsins voru að klifra í Óshlíðinni þar sem hún er töluvert nær Ísafjarðarbæ heldur en Dýrafjörður. Eftir að hafa ekið Óshlíðarveginn fram og aftur var ákveðið að klifra einu ísleiðina sem við rákum augun í (þó þær hafi eflaust verið fleiri). Þó að gangan væri styttri en fyrri daginn var hún töluvert brattari og skriður gerðu okkur erfitt fyrir. Á endanum komumst við þó að fossinum sem leit rosalega vel út. Fyrst haftið var glæsilegt, 20 metrar af „solid“ ís með vösum, íshelli og öðrum skemmtilegum fídúsum. Ottó leiddi og allir fengu að reyna við leiðina. Ottó, Katrín og Jonni enduðu á því að klára uppá topp en Charlotte var bara enn ákveðnari fyrir vikið að rústa okkur öllum á næsta festivali.

Þreytt eftir annan góðan ísklifurdag röltum við sæl í bílinn, sóttum restina úr hópnum (sem höfðu nýtt daginn í miklar spilapælingar). Á leiðinni heim var ófærð á vestari hluta Djúpvegs svo við urðum að keyra Innstrandaveg í staðinn. Það lengdi leiðina töluvert en þó voru allir mjög hamingjusamir með borgarann í Staðarskála, sem við urðum að keyra framhjá fyrir vikið.

Skemmtileg staðreynd: upphaflega ætluðu 8 manns á Ísfestivalið, kynjahlutföll 50:50. Því miður veiktist einn og því urðu hlutföllin 57% kk og 43% kvk.

Þökkum kærlega fyrir helgina og vonumst til að sjá enn fleiri félaga HSSR á komandi Ísfestivölum.

Katrín Möller