Fjallamennska 1 í Tindfjöllum

Um síðustu helgi fór 16 manna hópur nýliða 1 ásamt leiðbeinendum í Tindfjöll og var þar haldið námskeiðið Fjallamennska 1. Nokkuð ljóst var fyrir helgina að veðrið mundi ekki leika við okkur en ef út í það er farið þá held ég að veðrið í Tindfjöllum sé alltaf eins (kannski ekki allir sammála því, en samt).
Á föstudagskvöldinu var nýliðunum fengið það verkefni að rata upp í efsta skála þar sem gista átti yfir helgina. Þetta kvöld var ansi tunglbjart og var því ekki flókið að leysa þetta verkefni þar sem skálarnir voru eins og endurskinsmerki. Þegar í skála var komið var búið að kynda kofann vel og gátu því allir fengið sér snæðing áður en var hafist hand við að tjalda.
Laugardagurinn byrjaði með ágætis veðri og héldu hóparnir í sitthvora áttina og var farið yfir grundvallaratriði í fjallamennsku. Þegar leið á daginn fór að hvessa og snjóa/slydda/rigna en stöðvaði það ekki hópana í því að klára daginn. Mannskapurinn kom svo til baka blautur, en sáttur. Þá var lítið annað að gera í stöðunni en að kynda kofann og náði það hámarki þegar 35,7° hiti var kominn á svefnloftið. Tvö af tjöldunum höfðu fokið eða blotnað og var því troðið vel í skálann sem getur líka vel tekið amk 16 manns.
Restin af deginum og kvöldinu var tekin í snæðing og þurkun og sögur sagðar þar sem fremstur í flokki fór Valli.
Klassíska sunnudagsgangan var tekin þar sem gengið var að Hafrafelli við syðra fjallbak. Skilaði hópurinn sér þangað hundblautur (eða allavega flestir 🙂 á góðum tíma til að vera kominn um kvöldmatarleytið í bæinn.

—————-
Texti m. mynd: Einn af hópunum heldur á Saxa
Höfundur: Steinar Þorbjörnsson