Hákarl, toppaferð.

Beltó fór og viðraði sinn ástsæla Hákarl um helgina. Jói, Kalli, Nonni og Skúli lögðu í hann um fimm á laugardagsmorgni. Stefnan var tekin á Fjallabakið. Farið var upp hjá Keldum og var fært fyrir vörubílinn inn að Hafrafellinu.
Eftir að Hákarlinn var tekinn af fór um klukkutími í viðgerðir, endaði það með því að gerðar voru stillingar á servo’inu (stýringar fyrir glussakerfi) eftir eyranu og þá fór græjan að virka. Læðst var upp með Hafrafellinu en þegar komið var um 3-4 km upp fyrir það þá var kominn fínn snjór. Ekið var sem leið lá í Hungursfit og þaðan var áætlunin að fara upp á Tindfjallajökul en þar sem skýjað var þar uppi var því frestað um stund. Ókum við austur í átt að Skyggni, farið var upp úr dalnum og norður fyrir Skyggni. Haldið var áfram í austurátt á ásum sunnan Skyggnisvötn, þar blasti Laufafellið við í sólinni og ákváðum við að halda að því. Þegar að Laufafellinu var komið fórum við að litast um og komum auga á álitlega leið upp, lagt var á brattann og kom í ljós að færið var ljómandi, frekar hart en þó sjaldan ís. Eitt haft á leiðinni var nokkur farartálmi en eftir nokkrar tilraunir tókst að komast yfir þar. Þegar á toppinn var komið blasti við okkur frábært útsýni í allar áttir, reyndar var smá mistur öðru hverju en á milli birti vel til, ekki slæmt! Reyndar rifjuðust upp laglínur úr myndinni “Með allt á hreinu” þarna uppi, “við hefðum tekið myndir en höfðum engan kubb”, já eitthvað var lítið um myndavélar á staðnum þannig að það koma engar myndir á myndasíðuna (eigum trackið fyrir vantrúaða). Niðurleiðin gekk vel þrátt fyrir að hallinn væri talsverður, eftir þetta var farið Rangárbotnana og aftur inn í Hungursfit, þangað komum við um kvöldmatarleytið. Þar sem nóg var eftir af kvöldinu var ákveðið að kíkja inn undir Tindfjallajökulinn og skoða færð þar upp. Brekkan innst í gilinu sem við ætluðum upp úr leit nú ekkert of vel út í myrkrinu, við nánari skoðun ákváðum við að máta brekkuna. Ferðin upp gekk nokkuð vel, nokkuð var af lausum snjó í brekknunni og í nokkur skipti leit út fyrir að bíllinn stoppaði en þetta hafðist á endanum. Uppi var leiðinda rok með tilheyrandi skafrenning. Farið var upp undir Sindra og svo sem leið lá vestur með Ásgrindum, farið var fyrir þær og suður jökulinn, niður í Skíðadal og heim að skála Ísalp. Okkur fannst nú að frágangur og þrif á skálanum hefðu oft verið betri. Snæddum við þar kvöldmat og áttum næturstað.
Um morguninn var ennþá talsvert rok þó ekki eins mikið og um blánóttina en skafrenningur var enginn. Fórum við upp í skarðið/söðulinn á milli Ýmis og Ýmu, sáum við færa leið á Ými en ákváðum að láta hana vera þar sem fremur stutt var í brattar og langar hlíðar og því lítið svigrúm til að koma sér út úr vandræðum ef bíllinn færi af stað. Næst lá leiðin niður í Hungursfit sömu leið til baka, reyndar með stuttri viðkomu á Sindra, svo niður að Hafrafelli þar sem sett var á og haldið heim. Komið var heim um klukkan tíu á sunnudagskvöldi.
Frábær ferð í frábæru veðri og frábærum félagsskap.
PS Við viljum skora á aðra tækjamenn, innan sem utan sveitarinnar að reyna við þessar leiðir, þetta er eitthvað fyrir alvöru tækjamenn á alvöru björgunartækjum.
Screenshot af hlutum af track’i á myndasíðu.

—————-
Höfundur: Jóhannes Rögnvaldsson