Hjálparsveit skáta í Reykjavík 90, opið hús

Í tilefni af því að í ár fagnar Hjálparsveit skáta í Reykjavík 90 ára afmæli vilja félagar hennar gleðjast með íbúum í heimahverfum hennar og bjóða þeim að mæta á opið hús að Malarhöfða 6 laugardaginn 12. nóvember á milli kl. 12-14 og fræðast um allt það sem hún hefur upp á að bjóða. Margt verður til gamans gert; hægt verður að skoða tæki sveitarinnar og takast á við léttar og skemmtilegar þrautir.

HSSR var formlega stofnuð árið 1932, en hafði verið starfrækt óformlega um nokkurra ára bil þar á undan. Sveitin er því önnur elsta björgunarsveit landsins og sú elsta sem hefur starfað óslitið undir sömu merkjum. Lögreglan hafði þá um nokkurra ára skeið fengið skáta sér til aðstoðar í erfiðum aðgerðum þar sem reynsla þeirra af útivist og fjallamennsku gagnaðist vel. Í byrjun var sveitin nefnd Hjálparsveit skáta, en þegar fleiri slíkar sveitir komu fram á sjónarsviðið var hún nefnd Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Frá stofnun hefur starf sveitarinnar verið með miklum blóma og hefur það verið lán hennar að hafa alla tíð á að skipa úrvalsliði í félagahópnum og eiga gott bakland hjá íbúum allt um kring.

Sveitin hefur haft aðsetur að Malarhöfða 6 undanfarin 25 ár í góðu sambýli við nágranna sína í Grafarvogi, Árbæ, Grafarholti og Úlfarsárdal. Félagar hennar hafa t.d. tekið þátt í hverfadögum undanfarin ár og boðið upp á klifurvegg þar sem áhugasamir hafa getað tekið sín fyrstu skref í klifurlistinni.

Sjáumst hress og kát á laugardaginn kemur!

Myndir: Google Photos