Námskeiðið Structures Specialist 2

Félagi okkar í HSSR, Kári Steinar Karlsson, útskrifaðist nýverið af námskeiðinu Structural Specialist 2 sem haldið var í Moffett Field í Kaliforníu. Að þessum áfanga afloknum hefur Kári áunnið sér nafnbótina Advanced Structural Specialist. Námskeiðið er haldið á vegum verkfræðideildar bandaríska hersins (Army Corps of Engineers) og er það vottað af FEMA. Ferðafélagi Kára var Erlendur Birgisson frá HSSK. Í heild sátu námskeiðið 22 nemendur og er gaman að greina frá því að Kári og Erlendur eru fyrstu útlendingarnir sem útskrifast sem StS2.
Námskeiðið er 48 stundir sem dreifast á 6 daga. Nokkuð jöfn skipting var á milli bóklegra tíma og verklegra æfinga. Meðal þess sem í boði var fyrirlestur frá Nýja-Sjálandi um jarðskjálftana sem ollu þar miklum mannskaða og tjóni og svo fyrirlestur frá Texas um björgunarstarf í byggingunni sem nýlega var flogið á.
Áhersla var lögð á hamfarir hvers konar; jarðskjálfta, fellibyli, hryðjuverk, sprengingar (þ.m.t. gas) og hrun í byggingum á byggingartíma vegna mistaka.
Það sem getur nýst okkur er að sjá hvernig námskeiðshaldarar byggja upp sitt kerfi með aðilum í mati á öryggi/styrkingum á byggingum eftir áföll. Þeir viðburðir sem geta átt við hjá okkur eru helstir: jarðskjálftar, ofsaveður, snjóflóð eða aurflóð og hrun á byggingartíma.
Nánari upplýsingar um námskeiðið: disasterengineer.org

—————-
Texti m. mynd: Kári á námskeiðinu í Kaliforníu
Höfundur: Ólafur Jón Jónsson