Páskaferð Beltó

Í bítið á Skírdag hélt frítt föruneyti í Páskaferð Beltó undir forystu beltamanna Hlyns og Jóa, farartæki á jöklinum voru Hákarl, Reykur 3 og skíði í eftirdragi. Á fyrsta degi var skrönglast yfir sanda, ár og krapapytti og sannaðist þar máltækið að kemst þó hægt fari og fátt stendur í vegi fyrir Hákarli. En Reykur 3 þurfti nokkra aðstoð frá troðaranum til að komast á jökul í þungu færi. Um nóttina var slegið upp tjöldum við Kerlingu og var mál manna að þjónusta Bílaflokks væri ætíð til fyrirmyndar, þar sem þeir sáu fyrir þessu fína vatnsbóli á tjaldstæðinu.

Næsta dag var “brunað” í átt að Grímsvötnum þar sem slegið var upp tjaldbúð til tveggja nátta. Um kvöldið var skroppið í kvöldkaffi á næsta bæ, Grímsfjall, og gufan skoðuð í leiðinni. Í gufunni kom í ljós að sú regla er algerlega ófrávíkjanleg, að skilja aldrei við sig snjóflóðaýlinn í vetrarferðum, þar sem tveir fáklæddir félagar voru hætt komnir í snjóflóði (því miður náðist ekki mynd af því).

Á þriðja degi var rölt niður að Grímsvötnum, þar sem hinn fróði sögumaður Hlynur Skagfjörð fræddi lýðinn um jökla og eldgos, og bætti í með sögum, sennilega ósönnum. Einnig var fyrirlesturinn kryddaður með föðurlegum áminningum um hlutverk, hegðun og færni björgunarsveitarmanna. Eftir göngutúrinn var slegið í og haldið á Bárðarbungu og til baka. Að kvöldi var lambalæri og Royal búðingur etið með tilþrifum.

Á fjórða degi var haldið upp á Grímsfjall, Háubungu og á Pálsfjall þar sem vel sést til allra átta. Tjöldum var slegið upp í Jökulheimum. Á fimmta degi var haldið heim á leið.

Fararstjórn er þakkað fyrir vel skipulagða og stórgóða ferð, sögur ofl, svo og bílaflokk fyrir þeirra góðu þjónustu. (Myndir komnar á síðuna undir HSSR – MYNDIR)

—————-
Höfundur: Guðbjörg Árnadóttir