Sumardagsferð sleðaflokks

Að venju hélt sleðaflokkur HSSR í sína árlegu sumardagsferð. Að þessu sinni var lagt upp frá Holtavörðuheiði fyrsta dag sumars. Ekið var austur Arnarvatnsheiði að Hveravöllum þar sem ætlunin var að gista í tvær nætur. Fyrstu 30 km þurfti að þræða snjólænur í þoku en þegar við nálguðumst Arnarvatn Stóra létti þokunni og Eiríkjökull og Langjökull birtust í allri sinni dýrð.
Dagur tvö var nýttur í eftirlit með skála JÖRFÍ á Fjallkirkju. Veðrið var svo gott framan af degi að reynt var að keyra sem minnst og stoppa sem mest og segja sögur.
Á þriðja degi var haldið á tækjamót Landsbjargar í Nýjadal. Stíf norðanátt var þennan dag og naut hennar vel nema við Setrið þar sem sól skein í heiði. Það vakti því undrun okkar félaganna að enginn skyldi dvelja í Setrinu þessa helgina. Þegar nær dró Nýjadal bætti heldur í norðan strenginn þ.a. tækifærið var nýtt til að reyna á ratleikni nýliðans í hópnum (enda var hann eini maðurinn sem sá á GPS tækið!).
Í Nýjadal lentum við í dýrindis kræsingum í boði Landsbjargar og fengum bensín hjá félögum okkar í tækjaflokk sem mættu á tækjamótið. Eitthvað virtist norðan veðrið í Nýjadal hafa áhrif á vilja Landsbjargarfélaga til að dvelja þar því þegar leið á kvöldið vorum við orðnir einir eftir í skálanum.
Morguninn eftir var enn nokkur norðan strengur í Nýjadal en það glitti í heiðan himin til austurs. Því var ákveðið að renna austur Mjóhálsinn yfir í Snapadal og áfram yfir Köldukvíslarjökul og Tungnárjökul í Jökulheima. Veðrið lék við okkur um leið og við vorum komnir suður fyrir Tungnafellsjökulinn. Í Jökulheimum var samloka og sögustund en síðan renndum við suður Langasjó. Þaðan var rennt vestur að Tungnaá og eftir henni í Svartakrók. Tungnáin var aðeins farin að opna sig en við fundum flotbrú þar sem hélt.
Frábær 430 km ferð í góðum félagsskap.

Myndir komnar á myndasíðu.

—————-
Texti m. mynd: Ferill sumardagsferðar 2008
Höfundur: Páll Ágúst Ásgeirsson