Tag Archives: félagar

Inga og Björg

HSSR konur bjarga deginum!

Inga og Björg

Inga og Björg

Þann 12. júní sl. kl. 12:22 barst útkall F1 Rauður vegna slyss í fjalllendi, en tilkynnt hafði verið um einstakling í vanda á Esjunni. Félagar í HSSR brugðust hratt við og tóku tólf þeirra beinan þátt í aðgerðinni í tveimur hópum sem héldu strax áleiðis á vettvang.

Meðal þeirra sem móttóku útkallið voru Björg Guðmundsdóttir og Ingibjörg Markúsdóttir sem fengu réttindi sem fullgildir björgunarmenn í HSSR í vor. Þær voru í venjubundinni heilsubótargöngu á leiðinni upp að Þverfellshorni og voru komnar rúmlega hálfa leið þegar kallið barst. Brugðust þær skjótt við og hlupu við fót áleiðis upp fjallið þar til þær komu á vettvang. Þegar þangað var komið tóku þær strax yfir formlega stjórn og deildu svo með sér verkum. Björg, sem er starfandi hjúkrunarfræðingur, hóf strax að sinna þolandanum og Ingibjörg setti sig í samband við Neyðarlínu til þess að koma á framfæri upplýsingum um framgang á vettvangi. Eftir góða aðhlynningu braggaðist þolandinn sæmilega og gat fljótlega staðið upp. Mátu björgunarkonurnar stöðuna þannig að þær myndu aðstoða hann við að koma sér niður af fjallinu og var hópurinn farinn af stað þegar þyrlusveit Gæslunnar bar að. Þá fóru björgunarkonurnar í þann ham að gera þolandann kláran til flutnings og að taka á móti sigmanni. Gekk sú aðgerð hratt og greiðlega fyrir sig og komst þolandinn fljótt á sjúkrahús.

Félagi í svæðisstjórn á svæði 1 lauk lofsorði á aðkomu okkar kvenna og sagði að viðbrögð þeirra hefðu verið rétt og hefðu þær m.a. komið fljótt á framfæri réttum upplýsingum um staðsetningu vettvangs.

Það er gaman að greina frá því að þetta er í annað skiptið sem Ingibjörg er fyrst björgunarfólks á vettvang á Esjunni því í vetur lenti hún í álíka kringumstæðum. Því er ljóst að það eru töggur í nýjustu liðsmönnum Hjálparsveitar skáta í Reykjavík!