Turbó gangan (Sveinstindur – Eldgjá)

Föstudaginn 18. október lagði vaskur 12 manna hópur af stað frá M6, ferðinni var heitið í göngutúr frá Sveinstindi í Eldgjá. Um kvöldið var keyrt í Álftavatnskróka til næturhvílu. Á laugardagsmorgun var ræst í bítið og keyrt að Sveinstindi, tölt var á tindinn í mikilli blíðu, þó nokkuð blési á hópinn. Útsýnið af tindinum var stórkostlegt, þegar búið var að dásama það og taka nokkrar myndir var skundað í átt að Skælingum. Var það orð manna að náttúrufegurð væri mikil á leiðinni og gerði moldrokið útsýnið enn dulúðlegra í sólskininu.

Í Skælingum biðu fulltrúar bílaflokks sem dekruðu okkur alla helgina, voru þau búin að slá upp grilli og hita skálann. Hófst nú mikil grillhátíð í fjóskofa þar sem grilli HSSR hafði verið komið fyrir. Minnti aðför grillmeistara helst á borðhald úr mynd eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þrír félagar úr HSG sem voru á sömu leið og deildu með okkur skálanum, grillinu og aðstoðuðu fullgilda félaga HSSR í Trivial keppni við nýliða. Tókst fullgildum að sigra naumlega eftir harða baráttu.

Á sunnudagsmorgni var tölt sem leið lá á Gjátind og þaðan ofan í Eldgjá. Hádegissnarl var tekið við Ófærufoss og síðan keyrt heim um Fjallabaksleið nyrðri. Fararstjóranum, Kristjóni, er þökkuð góð stjórn og fullrúum bílaflokks, Kolla og Siggu þakkað fyrir góða þjónustu.

——————————————–

P.s. Mundu að skoða myndirnar undir HSSR-Myndaalbúm-“Sveinstindur – Eldgjá”

—————-
Höfundur: Stebbi