Undanfararennuferð á Eiríksjökul og Strút

Undanfararnir Steppo og Hálfdán og rennurnar Árni Þór og Ingi Bogi héldu í skemmtiferð upp til fjalla. Á dagskránni var að klífa Eiríksjökul (1680m) og Strút (938m). Við létum öll varnaðarorð um slæma veðurspá sem vind um eyru þjóta (skemmtilega orðað) og rukum af stað á föstudeginum. Ferðin uppeftir gekk greiðlega þótt leiðin yfir Hallmundarhraun var ágætis áskorun sem Ingi Bogi leysti prýðilega. Aðfaranótt föstudagsins var hvöss og máttu tjöldin hafa sig alla við að standast áhlaup Kára.

Laugardagsmorguninn var hvass, en þurr, en lægði þegar leið á daginn. Vopnaðir lyfrapylsukepp og sviðasultu héldum við hressir í bragði á tindinn. Fljótlega skreið þokan yfir og við gegnum meira og minna í henni þar sem eftir lifði dags. 4 klst og 24 mín síðar (til að hafa þetta nákvæmt) stóðum við á toppnum alsælir. Niðurferðin gekk vel og tók þessi fjallganga ca 7 tíma. Þá var tekið til við að grilla lamb sem við piltarnir lambhúsuðum auðveldlega. Eftir kanilsnúða í eftirrétt var skriðið inn í tjald kl. 20 og við tók 12 tíma svefn í algerri veðurstillu.

Sunnudagurinn heilsaði bjartur og fagur. Við keyrðum auðveldlega yfir hraunið, í birtu í þetta skipti, og parkeruðum bílinn við rætur Strúts. Rúmlega klukkutíma síðar stóðum við á tindinum og nutum ótrulega fallegs útsýnis. Varla til annað eins útsýnisfjall sem hægt er að komast á með jafnlítilli fyrirhöfn. Svo var rokið niður og keyrt í sund á Borgarnesi.

Fátt sem toppar góða daga á fjöllum!

P.s. Því miður klikkaði myndavélin þannig að engar almennilegar myndir náðust 🙁

—————-
Höfundur: Stefán Örn Kristjánsson