Úttektaræfing undanrenna

Um síðastliðna helgi fór fram seinni hluti úttektaræfingar undanrenna. Fáar undanrennur skráðu sig til leiks í upphafi og fækkaði þeim jafnt og þétt fram á síðustu mínútu fyrir brottför. Þegar upp var staðið stóð ég (Jón Magnús) einn eftir og sá fram á krefjandi helgi með fjórum af reyndustu undanförum sveitarinnar. Úr röðum undanfara voru mættir Helgi Hall formaður undanfara sem skipulagði úttektina, Árni Þór Lárusson fulltrúi stjórnar HSSR og síðast en alls ekki síst sérstakir heiðursgestir og úttektaraðilar, reynsluboltarnir Stefán Örn Kristjánsson (Steppó) og Hálfdán (verðurguð) Ágústsson

Við fimmmenningarnir lögðum af stað frá M6 kl. 18 á föstudagskvöld og var stefnan sett á Tindfjöll. Eftir hefðbundinn stans á Gallery Pizza á Hvolsvelli var ekið sem leið lá um Fljótshlíðina upp í Tindfjöll. Ákveðið var að gista í eldri skála Flugbjörgunarsveitarinnar í stað þess að tjalda. Skálinn er í mjög slæmu ástandi og aðeins tímaspursmál hvenær hann fýkur út í veður og vind. Dýnur voru allar blautar, rúður brotnar og stór snjóskafl á gólfinu. Þegar allir höfðu komið sér fyrir fengu allir páskaegg og heitt kakó fyrir svefninn.

Á laugardag var ræs klukkan 7:00, morgunverður snæddur og skíðin græjuð. Stefnan var tekin á Einbúann (Tindinn) og svæðið þar í kring. Eitthvað var minna af snjó en ætlað var og þurftum við stundum að bera skíðin stuttan spöl. Þegar við komum í hlíðarnar við Einbúa og Hornklofa komumst við að því að snjóflóðahætta væri töluverð og þurftum við aðeins að haga leiðarvali í samræmi við það. Veðrið sýndi allar sínar bestu hliðar, sólskin á köflum en dimm snjóél inn á milli. Þegar uppá eggjarnar milli Hornklofa og Einbúa var komið ákváðum við að ekki væri ráðlegt að reyna við Einbúann (Tindinn) í þetta sinn vegna ótryggra snjóalaga, veðurs og tímaleysis. Við tókum því stefnuna á Hornklofa þar sem við vissum af góðri skíðabrekku til að taka út skíðastílinn. Skíðafærið var frábært og allir skiluðu sér heilir niður þrátt fyrir ýmsar uppákomur. Eftir gott rennsli niður í skála var haldið heim á leið um kl. 17:30 og vorum við komnir á M6 og búnir að ganga frá um kl. 20:00, þreyttir en ánægðir eftir góðan dag á fjöllum.

—————-
Texti m. mynd: Í Tindfjöllum
Höfundur: Jón Magnús Eyþórsson