Vel heppnuð Kerlingarfjallaferð

Það voru hvorki meira né minna en 33 ferðalangar sem héldu af stað upp í Kerlingarfjöll á vegum HSSR síðastliðinn föstudag. Ferðin sóttist vel enda voru allir vegir snjólausir og engir aukvisar undir stýri: Dagbjartur, Frímann, Daníel Guðmundsson og Halldór Ingi. Þökkum þeim fyrir góðan akstur. Rafstöðin í Kerlingarfjöllum var biluð en nokkrir vaskir félagar voru snöggir að kippa því í liðinn en að öðrum ólöstuðum fóru Dagbjartur, Halldór Ingi og Sören þar fremstir í flokki. Vel gert! Það má skjóta því inn að við fengum gistinguna endurgjaldslaust og við þökkum Fannborgarmönnum fyrir það. Á laugardaginn sýndi hópurinn hvers hann var megnugur þegar við gengum á Mæni (1357m) í hrímþoku og slæmu skyggni. Við héldum síðan niður í Hveradali þar sem hádegisverður var snæddur. Eftir stutta skoðunarferð um Hveradali gengum við niður í skála eftir Ásgarðsánni austanverðri. Um kvöldið töfruðu Laurent og Julien fram ljúfengt lambalæri eldað að frönskum hætti. Á sunnudaginn héldum við aftur til byggða en á leiðinni börðum við augum fossinn Ábóta sem er efsti foss í Hvítá en það er um það bil klukkustundar gangur að honum frá Hvítárbrúnni. Þakka fyrir góða ferð

—————-
Texti m. mynd: Föngulegur hópur á Mæni
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson