Vordagsferð Fjallahóps 2013

Kátur hópur.

Kátur hópur.

Fjórir vaskir félagar Fjallahóps, Charlotte, Ívar, Tinni og Tommi auk Hersis, hunds Tomma, héldu á Tröllakirkju í Kolbeinsstaðarfjalli á sunnudaginn. Spáin var sérdeilis góð og kappar því fullir tilhlökkunar enda lýsingarnar af útsýninu ofan af þessum tindi ákaflega heillandi.

Lagt var upp frá bænum Mýrdal inn af Kolbeinsstöðum. Ferðalangar höfðu útvegað sér feril en völdu sér leið nokkru sunnar, eftir dragi í stað þess að fylgja gilinu. Heildarhækkunin kemur í tveimur hlutum en þegar upp hinn fyrra er komið tekur við nokkur flati upp að Kirkjunni sjálfri.

Þegar upp á fyrri brúnina var komið blasti Tröllakirkjan við og virtist vænlegast að halda upp snjólínu eina í greinilegu gili, sunnanmegin í klettunum. Þegar nær dróg seinni hlutanum kom í ljós að þeir voru ekkert svo brattir og því ákveðið að leita að leið í gegnum hamrana.

Ívar heggur spor.

Ívar heggur spor.

Broddum búnir héldu ferðalangar upp í hjarni brynjaðar hlíðarnar og sóttist vel. Reyndar þurfti að höggva nokkur spor í bröttustu hlutana og tryggja Hersi upp og niður næst efsta hjallann svo þetta var ekki alveg gefið. Efsti hluti kirkjunnar var hins vegar svo gott sem snjó- og íslaus svo broddunum var pakkað og prílað berskóað upp seinustu metrana. Þægileg uppganga (Hersir klöngraðist þetta líka) en síður fyrir lofthrædda að standa þar á toppinum.

Ofan af kirkjunni var einstaklega gott útsýni yfir drjúgan hluta Vesturlands. Hafandi drukkið í sig fjallasýnina, spjallað létt yfir nesti og nefnt þá tinda sem þeir þekktu, héldu Kirkjugestir niður á ný.

Lokaspretturinn.

Lokaspretturinn.

Líkt og gjarnan er á fjöllum var það niðurprílið sem reyndi mest á fótafimina en allt gekk að óskum nema hvað útúrdúrinn til að finna ístólaklippu sem fallið hafði niður var árangurslaus. Hún bíður því einhvers heppins göngugarps.

Á leiðinni niður var breiða gilið valið og komið við í Mýrdalsgjá sem er merkilegt fyrirbæri. Fjarkinn hlaðinn, vöðvar teygðir og svo haldið í bæinn. Allt í dýrindis veðurblíðu.

Já, vorið er komið.