Athafnahelgi í fræðslumálum, sleðamenn á jökli.

Það var haft á orði að verulega myndi fjölga í hinum forna Grafningshreppi þegar sveitin mætti á Úlfljótsvatn á föstudagkvöldið var, því það voru ekki færri en 54 N1 nýliðar að fara á rötunarnámskeið og 26 N2 nýliðar á leitartækninámskeið. Það var nú líka bent á hversu hentugt þetta fyrirkomulag væri, því ef verklegar rötunaræfingar færu á versta veg þá væri einstaklega stutt í áhugasama leitarmenn. DSÚ var lagður undir rötunina og leitartæknin var kennd í KSÚ. En það er nú ekkert auðhlaupaverk að halda námskeið fyrir 80 manns samtímis og það var fjölmennur og öflugur flokkur frá sveitinni sem bretti upp ermarnar og sá til þess að þetta gengi upp. Kennt var í þremur kennslusölum samtímis og auk þess var fjöldi aðstoðarmanna á svæðinu, við undirbúning og framkvæmd verklegra æfinga, akstur og matseld. Sjálfur sveitarforinginn t.d. fóðraði tilvonandi björgunarmenn af myndugleik, en í eldhúsinu sást einnig til gjaldkerans og ritarans – auk margra annarra mætra félaga…… og nýliða. Allir lögðust á eitt og margar hendur vinna létt verk. Æft var við mismuandi veðuraðstæður, m.a. í rigningarskúr sem nálgaðist hreint skýfall, en eins og alltaf þá þótti reyndum félögum veðrið vera full gott fyrir nýliðana á meðan á stóru rötunaræfingunni stóð á laugardagskvöldinu. Allt gekk þetta svo upp með samstilltu átaki og voru allir komnir í bæinn fyrir klukkan sex á sunnudag eftir ánægjulega og lærdómsríka helgi. Þessu til viðbótar var einn bílfarmur af sveitarfélögum á Fagnámskeiði í leitartækni, þannig að allt í allt voru 85 manns samtímis á formlegum námskeiðum á vegum HSSR þessa helgina – og það gerist nú varla betra.

Á myndinni eru nýliðar að reyna að rekja slóð hins “týnda”, sem reyndar stóð sjálfur rétt hjá og fylgdist með árangrinum.

Þessu til viðbótar fór Vélsleðahópur septemberdagsferðina sína á laugardag. Þrír sleðamenn héldu á Mýrdalsjökul til að lesa af afkomumælingastikum. Þessi ferð er unnin í samstarfi við Jöklarannsóknarfélag Íslands og hefur gefist vel að sameina æfingar við raunveruleg verkefni.

JGE/HSP

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson