Síðdegis í gær, 25. mars, barst beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð við slasaðan göngumann í Esju. Viðbragð félaga í HSSR var snöggt og var fyrsti bíll farinn úr húsi, fullskipaður, um 15 mínútum eftir að boðin bárust. Alls komu 21 félagar að þessari aðgerð og 12 voru í viðbragðsstöðu.
Aðgerðin gekk vel, hinn slasaði var fluttur á sexhjóli Kyndlismanna áleiðis að sjúkrabíl, þaðan sem hann var fluttur á slysadeild. Veður var gott.
Þetta var fysta útkall nokkurra nýinngenginna félaga og óskum við þeim alls góðs í störfum sínum fyrir félagið.
Author Archives: Ólafur Jón Jónsson
HSSR tekur þátt í Mottumars
Nokkrir vel skeggjaðir félagar í Hjálparsveit skáta í Reykjavík taka þátt í Mottumars í ár og biðla til áhugasamra um að leggja sér lið til þess að sem mest fé geti safnast. Eins og allir vita er Mottumars haldinn árlega til þess að vekja sérstaka athygli á krabbameini í körlum og safna fé til rannsókna á þessum vágesti.
Árlega greinast að meðaltali 725 karlar með krabbamein á Íslandi og árlega deyja að meðaltali um 287 karlar úr krabbameinum. Þetta eru synir, makar, bræður, pabbar, afar og vinir. Þitt framlag skiptir miklu máli. Við getum haft áhrif því rannsóknir sýna að koma má í veg fyrir að minnsta kosti 1 af 3 krabbameinum með t.a.m. fræðslu og forvörnum. Heimsæktu því HSSR á vef Mottumars og leggðu góðu málefni lið!
Útkall F3 grænn, ófærð á höfuðborgarsvæðinu
HSSR var boðuð út kl. 6:45 í gærmorgun, miðvikudaginn 6. mars, til aðstoðar vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í efri byggðum. Mikil ofankoma og hvassviðri einkenndi aðstæður fyrri hluta dags og á köflum var mjög blint veður. Sveitin sinnti fjölda verkefna en áhersla var lögð á að halda stofnbrautum greiðum sem og að aðstoða fólk með börn og sjúklinga. Dregið var úr viðbúnaði þegar líða fór á daginn og um kvöldmatarleytið voru allir hópar komnir í hús.
Slysavarnardeild kvenna í Reykjavík kom færandi hendi á Malarhöfðann um hádegisbil og tók til næringu fyrir björgunarfólk. Hópar af öllu höfuðborgarsvæðinu nýttu sér þennan höfðingsskap þeirra og þáðu heita súpu, smurt brauð, kaffi og nýbakaða köku.
Alls komu 31 manns frá HSSR að útkallinu og um 20 manns til viðbótar voru tilbúnir að koma með skömmum fyrirvara. Í dag, fimmtudag, hefur veðrið gengið niður og svæðisstjórn telur ekki þörf á frekari viðbúnaði.
Útkall F2 gulur, týnd kona á höfuðborgarsvæðinu
Kl. 01:05 barst Hjálparsveit skáta í Reykjavík tilkynning um útkall og var um að ræða týnda konu á höfuðborgarsvæðinu.
Alls brugðust 10 félagar við og mættu upp á Malarhöfða 6 og aðrir 7 lýstu sig reiðubúna til þess að mæta síðar ef þörf krefði. Útkallið var afturkallað rúmlega 40 mínútum síðar þegar konan fannst heil á húfi.