Boli á Öræfajökli

Snjóbíllinn okkar-Boli-hefur frá því á laugardag verið á Vatnajökli sem einn af burðarásum vorferðar Jöklarannsóknafélags Íslands. Eftir að hafa komið 3 tonnum af eldsneyti á Grímsfjall var haldið í Kerkfjöll á sunnudag og þar hefur síðan verið við fjórða mann Hanna Kata HSSR félagi, við rannsóknir á gufuútstreymi. Boli var í eystri_Skaftárkatli í gær og aðstoðaði þar starfsmenn Veðurstofu Íslands við leit að mælitækjum sem töpuðust þar í síðasta Skaftárhlaupi. Boli fann reyndar ekki tækin. Eiríkur "Ungi" eins og JÖRFÍ félagar kalla hann, einnig félagi í HSSR setti upp nýjan fastmælingapunkt í norðanverðum Esjufjöllum í gær og í dag hefur hann ásamt fleirum verið á Bárðarbungu við uppsetningu mælitækja.

Við Boli erum hinsvegar svo ósköp óheppnir að hafa verið sendir suður á Öræfajökul ásamt tveimur sleðamönnum til Íssjármælinga. Við munum gista í Bola í nótt uppi í Öræfajökulsöskjunni og væntanlega ljúka mælingum á morgun. Að sjálfsögðu er þessi ferð farin með leyfi Vatnajökulsþjóðgarðsvarða, en annars er umferð vélknúinna ökutækja bönnuð á Öræfajökli á þessum árstíma.

Netsamband er hér gott og því varð ég að setja þessa frétt inn ofan úr norðanverðum Öræfajökli.

Jöklafarar ætla að reyna að ná heim fyrir boltagæslu á laugardag.

—————-
Texti m. mynd: Góðir saman Boli og Hvannadalshnjúkur
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson