Fagnámskeið í fjallamennsku

3.-7. mars fóru Ásdís, Hanna Lilja og Katrín á fagnámskeið í fjallamennsku á Gufuskálum. Markmið námskeiðsins er að dýpka þekkingu þátttakenda í fjallafræðunum og gera þá hæfari sem kennara. Kennslan hófst að morgni miðvikudags á fyrirlestri líkt og allir dagarnir. Síðan var farið í kletta rétt við Gufuskála og tryggingar og fleira í þeim dúr æft. Næsta dag var farið í félagabjörgun og voru áherslunar aðrar en við höfðum æft. Í stað þess að einblína á fjallabjörgun var björgunin æfð miðað við að tveir klifrarar hefðu lent í vandræðum. Næsta dag var farið í ísklifur fyrir utan Grundarfjörð í 8°C, 20 m/s og grenjandi rigningu. Aðstæður voru jafngóðar og veðrið og sá litli ís sem var til staðar um morguninn var næstum horfinn þegar við yfirgáfum svæðið. Á laugardaginn var síðan farið upp á Snæfellsjökul. Við fórum á glæsilegum Höglund upp á jökul. Í þennan litla snjóbíl komust 9 manns, tonn af skíðum og 20 bakpokar. Okkur leið eins og sardínum í dós og sem betur fer var enginn snertifælinn! Þann daginn frysti svo að færið var vægast sagt hart og erfitt og ekki bætti úr skák að hífandi rok var líkt og fyrri daginn. Við byggðum ýmsar útgáfur af neyðarskýlum, bæði snjóhús og skýli ásamt því að fara í ýlaleit. Úr varð fínasti dagur sem lauk með bayonskinku sem að meistari Þór staðarhaldari eldaði og heitum súkkulaðimöffins í eftirrétt. Námskeiðið endaði á sunnudaginn á kennslufyrirlestrum og ýmsir lausir endar hnýttir, næstum því bókstaflega!

Kennararnir gerðu miklar kröfur til allra og námskeiðið var mjög krefjandi. Við lærðum heilan helling og margt sáum við í fyrsta skipti. Kynjahlutfallið var mjög skemmtilegt, 15 strákar og 4 stelpur, þar af 3 frá okkur! Þór staðarhaldari á miklar þakkir skyldar, hann sá um að elda dýrindiskvöldmat í lok hvers dags sem lögðust vel í mannskapinn.

—————-
Höfundur: Hanna Lilja Jónasdóttir

Fagnámskeið í fjallamennsku

Fagnámskeið í fjallamennsku var haldið á Gufuskálum dagana 4. – 8. mars. Frá HSSR fóru tvær undanrennur, Jón Magnús og Ásbjörn (Ási). Námskeiðinu er ætlað að taka á sem flestum þáttum í fjallamennsku og auka þekkingu og færni þátttakenda í fjallamennsku. Námskeiðið veitir þátttakendum réttndi til að kenna á fjallamennskunámskeiðum innan sinnar sveitar.

Þátttakendur á námskeiðinu voru 12, 2 frá HSSR, 3 frá HSSK, 2 frá Ársæli, 3 frá Súlum á Akureyri og 2 frá Björgunarsveitinni á Dalvík. Kennarar voru 4, Ásmundur Ívarsson verkefnastjóri í fjallamennsku hjá Björgunarskólanum, Þórður Guðnason og Sigurður Axel Axelsson undanfarar hjá Björgunarfélagi Akraness og Freyr Ingi Björnsson undanfari hjá Ársæli og formaður ÍSALP.

Dagarnir hófust með morgunverði kl. 8:00 og fundi kl. 8:30 þar sem farið var yfir verkefni dagsins. Klukkan 9:00 var laggt af stað frá Gufuskálum á æfingasvæði dagsins með nesti og nauðsynlegan búnað. Gert var hlé á æfingum og kvöldmatur snæddur á Gufuskálum kl. 19:00. Æfingum var svo haldið áfram kl. 20:00 í skemmunni eða í næsta nágrenni. Æfingum var oftast lokið um kl. 22 og hófst þá undirbúningur fyrir daginn eftir. Háttatími var því um kl. 1:00 alla dagana.

Dagskráin var í stuttu máli þessi.
– Miðvikudagur: Brottför frá Skógarhlíð kl: 19:00.
– Fimmtudagur: Farið yfir grunnatriði í fjallamennsku. Tryggingar, hnútar, sig, klettaklifur og félagabjörgun.
– Föstudagur: Ísklifurdagur, ýlaleit, dobblun
– Laugardagur: Skíðadagur á Snæfellsjökli og sprungubjörgun.
– Sunnudagur: Inniæfingar, júmmun o.fl.

Veðrið setti svip sinn á námskeiðið, stekkingsvindur var alla dagana og frost 3-7 stig. Það varð það til þess að ákveðið var að sleppa klifurferð sem var á dagskrá á heimleiðinni þar sem allir höfðu fengið sinn skammt af skafrenningi slæmu skyggni dagana á undan. Námskeiðinu lauk kl. 15:00 á sunnudaginn og vorum við Ási komnir á M6 og búnir ganga frá um kl. 20:00. Þreyttir en ánægðir með vel heppnað námskeið.

Myndir eru komnar á myndasíðuna.
https://hssr.is/adminimages/myndir.asp?flokkur=293

—————-
Texti m. mynd: Frá æfingum í sprungubjörgun
Höfundur: Jón Magnús Eyþórsson