Ferðasaga: Massaferð undanfara 28-30 apríl

Stutt greinargerð um Massaferð ’06 undanfara 28-30. apríl

Föstudagir:
Burrað var í Hjaltadalinn á föstudaginn og þar hittum við fyrir Waldorfinn vera að preppa skinnin sín fyrir komandi átök. Eftir langt spjall og einn pilsner steinsofnuðu allir og biðu spenntir eftir laugardeginum.

Laugardagur:
Upp úr níu voru allir komnir á stjá. Eftir prýðilegan hafragraut var farið út á plan og ákveðið á hvaða fjall skildi skunda. Enduðum á að keyra fram/inn dalinn og góna upp um allar hlíðar. Fjallið Hvammsfjall var valið – enda bauð það upp á samfellda og flotta línu sem náði niður í túnfótinn, ca 100m frá bíl. Eins og venjulega blekkti augað því þetta var allmikil fjallganga og brattara en við áttum von á. Upp vorum við komin um fjögur leytið og besti parturinn eftir – niðurrenslið. Þegar allir voru orðnir mettir, búnir að dreypa á toppadrykknum, Knastásinn velsmurður, skíðin preppuð og hjálmurinn kominn á kollinn byrjuðum menn að gíra sig upp fyrir massabrun! Niðurferðin var yndisleg. Brattinn hæfilegur, færið ljómandi – en þó í þyngra kantinum, og línan sem við völdum assvíti flott. Niður komumst við öll eftir allt of stuttan tíma – slíkt er eðli fjallaskíðaferða. Þá var ekkert annað að gera en að smella sér að Waldorfsetur, fá sér harðfisk m. ostasósu og hefjast handa við að dysja lambalærið. Að ítölskum sið byrjuðum við svo að borða rúmlega 9. Tveimur tímum, einu læri, nokkrum kartöflum og laukum, sósu, sweet potatoes, salati, súkkulaðibönunum, og melónum síðar voru allir velmettir nema ég – bara mettur 🙂 Þá settumst við í betri stofuna, blöstuðum Black Sabbath og leystum heimsmálin. Allir sofnaðir um miðnæti – sáttir eftir góðan dag.

Sunnudagur:
Knastásinn var ryðgaður um morguninn en hafragrauturinn smurð’ann soldið. Hringt var í Viggó á Sauðarkróki og riggað upp troðaraskutl upp á Tindastól. Ætlunin var að djömpa niður Stólinn að austanverðu og fara svo í Reykjalaug – náttúrulaug utarlega í Skagafirðinum. Þegar upp í Stólinn var komið heillaði veðrið og færið svo gríðarlega að við ákváðum að taka nokkrar ferðir fyrst. Færið var hreint út sagt meiriháttar, ekta vorslöss. Mörkuðum við því allmikið þarna og nýttum okkar prýðilega utanbrautarmöguleika áður en við fengum okkur kaffi.
Strax eftir kaffi burraði Viggó = meistari með okkur í sérviktuðu troðaraskutlskúffunni sinni upp á topp. Þá var bara að velja og hafna. Við ákváðum að skella okkur niður augljósu skálina sem er norðan við skíðasvæðið á Tindastólinum vestanverðum. Hættum m.ö.o. við að renna okkur niður í Skagafjörðinn – enda var snjór ekki eins mikill þar og við óskuðum. Lokasalibunan var frábær og reyndist góður endir á góðri skíðahelgi. Hrafnhildur sannaði að ef þú dettur ekki ertu ekki að reyna og uppskar einnig þessa fínu efrivör. Þar sem nagli er á ferð bruddi hún bara nokkrar steinvölur, drakk eigið blóð og hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Svo var burrað í bæinn og sungið allaleið undir taktföstum tónum Tool, CCR, Nonna Krónu og Scorpions.

Þökkum öll Valla og Íbí fyrir hlýjar móttökur!!!

(myndasíða er að fæðast)

—————-
Vefslóð: gallery.askur.org/album541
Texti m. mynd: Nokkir af þátttakendum ferðarinnar
Höfundur: Stefán Örn Kristjánsson