Fjallamennska 1 við Landmannalaugar

Um helgina var haldið námskeið í Fjallamennsku 1 við Landmannalaugar. Það voru 40 nýliðar, leiðbeinendur og bílstjórar sem lögðu í hann snemma á föstudagskvöldið. Eftir smá bilerí, jeppaleik og nokkurra kílómetra þramm komst hópurinn í Laugar þegar klukkan var farin að ganga 3.

Stundvíslega kl. 7:30 gall vekjaraklukkan og stuttu síðar var haldið út í mörkina með fullar byrðar. Aðstæður til kennslu voru með besta móti, brattar brekkur, harður snjór og temmilega napurt og hvasst. Dagurinn fór í kennslu í grunnfræðunum, s.s. ísaxarbremsu, línu- og broddagöngu en jafnframt féllu einhverjir tindar. Undir myrkur var komið aftur í skála en þá hafði frostið heldur hert og farið að blása duglega.

Á sunnudagsmorgni voru engin grið gefin og allir komnir út í birtingu en við tók frekari kennsla og þramm. Klukkan tvö sameinaðist svo allur hópurinn á ný og komst í bílana en heim var komið um kl. 18.

Sem sagt; prýðisnámskeið, duglegt fólk, góður félagsskapur og mikið gaman. Nokkrar myndir eru komnar á myndasíðuna.

—————-
Texti m. mynd: Skóflurennsli er nýjasta jaðarsportið…
Höfundur: Hálfdán Ágústsson