Fjallamennska 2 var haldin seinustu helgi í blíðskaparveðri. Á föstudagskvöldi var haldið inn í Botnsdal í Hvalfirði og stefnan tekin á Botnssúlur. Þrátt fyrir fínasta veður gekk ferðin hægt sökum þess að mikið af nýföllnum snjó var á svæðinu og þurfti oft að vaða snjó upp í mitti. Um 2 um nóttina var ákveðið að tjalda við Sandvatn og risu þá veglegar tjaldbúðir á svæðinu.
Á laugardagsmorgninum var mjög hvasst, líklega í kringum 15-18 m/s. Var það örlítið meira en við bjuggumst við svo við hringdum í veðurfræðing til að grennslast fyrir um veðurútlit dagsins. Þegar við heyrðum setninguna "tja, það á að byrja að hvessa um 3-leytið" funduðu allir leiðbeinendur (nema þeir 3 sem voru steinsofandi inní tjaldi) og var ákvörðun tekin um að halda til byggða. Héldum við þá rakleiðis ofan í Brynjudal þar sem brosandi bílahópsmenn tóku á móti okkur og ferjuðu okkur í bæinn. Tekin var ákvörðun um að fara í Bláfjöll stundvíslega kl 7 næsta morgun.
Veðrið á sunnudeginum var öllu skaplegra en daginn áður. Einungis hóflega hressilegur vindur og frost. Deginum var eytt í tæknilegar æfingar í Bláfellshálsi þar sem snjótryggingar og klifurferlið var masterað. Það voru svo hressir nýliðar sem að mættu á M6 eftir góða helgi. Fjöldamet var sett í gufunni að loknum frágangi þar sem öll sæti voru þétt setin, þrír stólar líka auk aðila sem stóðu á kantinum.
Takk kærlega fyrir glimrandi helgi!
—————-
Texti m. mynd: Arkitektar í skjólveggjahönnun
Höfundur: Daníel Másson