Frétt af Vísi.is

Íslendingar voru á Mont Blanc þegar snjóflóðið féll Fimm á toppnum. MYND/Árni Þór Lárusson Atli Steinn Guðmundsson skrifar:

„Ég myndi nú ekki segja að við höfum verið í neinum lífsháska, við fórum aðra leið," sagði Árni Þór Lárusson sem stóð við fimmta mann á toppi hvíta risans Mont Blanc, hæsta fjalls Frakklands og Vestur-Evrópu, á sunnudagsmorgun. Átta manns eru taldir af eftir að hafa lent í snjóflóði sem féll á þeim slóðum þar sem Íslendingarnir hugðust fyrst ráðast til uppgöngu.

„Það var búið að vera þrumuveður og snjókoma svo við ákváðum að fara aðra leið," sagði Árni Þór enn fremur. Hann sagði þá félaga hafa farið svonefnda Gouter-leið upp á fjallið sem er algengasta gönguleiðin á Mont Blanc. „Við byrjuðum klukkan þrjú á laugardaginn og vorum komnir upp í [Gouter-] skála klukkan átta um kvöldið. Við lögðum svo af stað um þrjúleytið um nóttina og vorum komnir upp á topp klukkan hálfníu um morguninn," útskýrði Árni. Fimmmenningarnir eru allir félagar í Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Hann sagði förina hafa sóst vel þrátt fyrir mikinn kulda. „Það er gaman þegar maður kemur niður," sagði Árni en þeir félagar eru engan veginn hættir klifrinu því þeir halda rakleiðis á tind Matterhorn, hæsta fjalls Sviss, og koma svo heim á Frónið 3. september ef allt gengur að óskum.

—————-
Höfundur: Hlynur Skagfjörð Pálsson