Undanfarar og góðir gestir héldu til fjalla um síðustu helgi. Eftir hörð þrekpróf, niðurskurð og val á efnilegustu ferðafélögunum, voru það 6 Undanfararennur og 1 nýliði sem hlutu náð fyrir augum leiðangursstjóra. Gummi Straumur tók að sér akstur frá Skaftafelli yfir Núpsvötnin, verkefni sem er ekki á færi allra. Á föstudagsmorgni var gengið í rjómablíðu frá Núpsstaðarskógi upp með Núpsvötnunum og alla leið að Grænalóni, en almennt eru þetta taldar vera tvær stuttar dagleiðir. Við Grænalón tók á móti okkur skaðræðisjökulfljót sem ekki varð fært fyrr en snemma næsta morgun. Það er dagleið frá Grænalóni og yfir Skeiðarárjökulinn að tjaldstæði aldarinnar ofan við Norðurdal við Færneseggjarnar. Sjaldan hefur maður upplifað annað eins veður á fjöllum, logn og sól en niðri í byggð lágu ský og þoka yfir öllu. Sunnudagsmorguninn heilsaði með heiðskíru og frekari hlýindum svo göngugarpar urðu að láta nærklæðin duga á göngunni. Enn lágu ský yfir öllu láglendinu en fjöllin stungu sér allsstaðar upp úr hulunni. Í Skaftafell var svo komið seinnipart sunnudags, burrað í bað í Flosalaug og svo í ættaróðalið í Landbrotinu þar sem slegið var upp heljarinnar grillveislu og hvílst fyrir heimferð á mánudagsmorgni.
Myndir munu berast inn á myndasíður á næstunni.
—————-
Texti m. mynd: Jólasveinar ofar skýjum á Blátindi
Höfundur: Hálfdán Ágústsson