Hjólaferð

Um helgina fóru 10 fræknir HSSR-liðar í býsna góða hjólaferð. Aðfaranótt laugardags gistum við í Kerlingarfjöllum. Staðarhaldarar voru svo rausnarlegir að veita okkur húsaskjól endurgjaldslaus. Á laugardaginn hjóluðum við í ágætu veðri norðurfyrir Kerlingarfjöll inn að Kísubotnum. Lítið var í ánni að þessu sinni en sandurinn í brekkunum upp af Kísubotnum var illviðráðanlegur. Áfram héldum við til vesturs sunnan við Kerlingarfjöllum en þegar við vorum komin til móts við Klakk kom smá súld sem gekk þó fljótlega yfir. Næturgisting var í Leppinstungum en áður en þangað kom börðum við augum Kerlingarfoss. Niður af honum eru há en þröng gljúfur sem er vel þess virði að skoða. Á sunnudag hjóluðum við niður með Hvítá að austanverðu allt að Gullfossi. Á þessari leið fórum við yfir svo margar ár og læki að allir voru löngu hættir að nenna að fara úr skónum! Þakka öllum samferðamönnum fyrir góða ferð, sérstaklega okkar ágæta bílstjóra Birki sem kom okkur örugglega á milli staða.

—————-
Texti m. mynd: Stefán Páll lætur Kísu ekki stoppa sig
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson

Hjólaferð

Í haust verður farið í hjólaferð, nánar tiltekið fyrstu helgina í september (31. ágúst til 2. sept.). Fyrirhugað er að hjóla Kjalveg hin forna. Vona að þetta rekist ekki á aðra fyrirhugaða dagskrárliði. Nánari upplýsingar síðar. Ferðin ætti að vera við hæfi flestra sem eru í meðalslöku formi.

—————-
Höfundur: Eyþór Örn Jónsson