Kajakferð HSSR á Langasjó, 22-24 ágúst 2003

Föstudaginn 22 ágúst lögðu 15 félagar HSSR með 14 báta af stað í kajakferð á Langasjó. Flestir tjölduðu í Hólaskjóli en nokkir við Langasjó. Á laugardagsmorgni hittust fylkingarnar á Langasjó og róið var að tjaldstæðinu sem er við norðurenda vatnsins, í ca 20 km fjarlægð. Veðrið á laugardeginum var mjög misjafnt, stundum frekar stillt en yfirleitt hvasst og miklar vindkviður skullu á ræðarana með ógurlegum krafti. Það var mikið ævintýri að róa í þessu veðri. En allt gekk vel og um klukkan 18 var komið að tjaldstað og tjöldum slegið upp. Síðan var grillað og etið og það voru sérstaklega miklar kræsingar á borðunum í þessari ferð, humar, hrefnukjöt, lambalundir, nautasteikur, marineraðar kjúklingabringur svo eitthvað sé nefnt. Reyndar má geta þess að það sást til eins félaga með þurrmat í poka…

Eftir að myrkur skall á var kveiktur varðeldur og eldurinn logaði yfirleitt lárétt því rokið var svo mikið. Fía sagði skemmtilegar sögur við varðeldinn sem vöktu mikla lukku. Smám saman skriðu félagarnir í koju. Um nóttina var mjög hvasst og margir vöknuðu og náðu í steina til að festa tjöldin betur. Einn kajakinn fauk eina 20 metra um nóttina.

Á sunnudagsmorgni vaknaði fólkið snemma og veðurútlit var ekki sem best, rok og rigning. Það stytti upp rétt áður en skriðið var úr tjöldum og veðrið lék við okkur þennan dag. Róið var að Útfallinu að Skaftá og það skoðað. Síðan var farið í spennandi könnunarleiðangra inn í nokkra hellisskúta sem á vegi okkar urðu á leið að bílastæðinu.

Þetta var mjög skemmtileg kajakferð og allir héldu glaðir í bragði og ánægðir með helgina heim á leið.

—————-
Texti m. mynd: Kajakferð HSSR á Langasjó
Höfundur: Stefán P. Magnússon