Hengilsdagur 31. ágúst

N.k. sunnudag, 31. ágúst, mun Hjálparsveit skáta í Reykjavík standa fyrir Hengilsdegi í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur. Fjölbreytt dagskrá verður í boði á svæðinu. Hægt verður að ganga í nágrenni skíðaskálans í Hveradölum, hjóla og kynnast nokkrum þáttum sem björgunarsveitir þurfa að kunna.

Þeir sem kjósa að ganga geta valið sér mislangar göngur allt frá því að ganga á Stóra-Reykjafell eða umhverfis Stóra-Reykjafell. En fyrir þá sem kjósa að ganga hærra og lengra þá geta þeir ekið að skíðaskála Víkings og gengið á Skeggja hæsta fjall Hengilsins.

Einnig verða í boði hjólaferðir.
Dæmi um stutta ferð er frá skíðaskálanum í Hveradölum – komið við hjá einni borholu – haldið niður Hellisskarð (muna að fara varlega) – komið við á Kolviðarhóli – hjólað framhjá Stóra Reykjafelli og endað við skíðaskálann aftur. Þetta er leið sem allir ættu að geta ráðið við.

Dæmi um ferð fyrir þá sem vilja hjóla aðeins meira þá byrjar hún eins og sú fyrri en heldur áfram umhverfis Skarðsmýrarfjall – farið í Innstadal – niður sleggjubeinsskarð framhjá skíðaskála Víkings – komið við á Kolviðarhóli – hjólað framhjá Stóra Reykjafelli og endað við skíðaskálann aftur. Þessi leið er talsvert lengri en sú fyrrnefnda en ætti samt að vera á færi flestra sem hafa hjólað eitthvað áður.

Þeir sem ekki treysta sér að rata þá verða þessar leiðir farnar kl. 11.00 og 13:00 með fólki sem vísar veginn og getur veitt aðstoð ef eitthvað kemur uppá.

Umhverfi Hengilsins býður uppá margar skemmtilegar leiðir hvort sem heldur er ferðast gangandi eða hjólandi. Svæðið er vinsælt á sumrin en er ekki síður skemmtilegt sem gönguskíðasvæði á veturnar og víða leynast fínar skíðabrekkur fyrir þá sem nenna að ganga upp brekkurnar.

En hvað sem hver velur að gera á Henglinum þá ætti engum að leiðast. Því er ekkert til fyrirstöðu en að drífa sig á svæðið og kynnast því af eigin raun.

Góða skemmtun,

Félagar í Hjálparsveit skáta í Reykjavík

—————-
Vefslóð: or.is
Texti m. mynd: Myndin er tekin á Hengilssvæðinu við borholu
Höfundur: Steinar Þorbjörnsson