Leit að tveimur snjósleðamönnum á Langjökli

Búið er að finna mennina heila á húfi (kl. 11:30).
———————————————

Í gangi er leit á Langjökli að tveimur vélsleðamönnum. Tveir jeppar og snjóbíll frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík lögðu af stað með 10 manns í gærkvöldi. Því til viðbótar taka 5 sleðamenn þátt í leitinni og byrjuðu þeir leit snemma í morgun.

Ef ekki verður búið að finna mennina í eftirmiðdaginn má gera ráð fyrir því að byrjað verði að skipta út mannskap sem er við leit núna.

———————————————

Myndin er tekin við annað tilefni.

———————————————
Fengið af vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar allt frá Suðurnesjum til Norður- og Suðurlands eru við leitarstörf á Langjökli núna.
Alls eru 225 björgunarsveitarmenn á jöklinum eða á leiðinni á svæðið. Þeir nota 76 vélsleða, 38 öfluga björgunarsveitarjeppa og 11 snjóbíla við leitina. Veður á Langjökli er ekki gott 15-20 m/sek og 15° frost.
Kl.23:20 í gærkvöldi fannst einn manna sem leitað hafði verið að ofan við Þjófadali. Hann hafði þá stoppað og grafið sig í fönn við sleðann sinn. Gat hann látið björgunarsveitir vita af ferðum sínum og að hann þyrfti aðstoð við að komast til byggða. Var hann við ágæta heilsu þegar að var komið.
Kl.04:30 í nótt fannst annar vélsleði 800 metra frá hinum sleðanum sem hafði fyrr um kvöldið.
Sleðinn var á áætlaðri leið mannanna en mannlaus og með hluti af búnaði sleðamannsins á honum.
Vonast er til að mennirnir tveir sem eftir á að finna séu saman á ferð einum sleða eða búnir að grafa sig í fönn og bíði aðstoðar.
Það að vélsleðinn skyldi finnast 800 metra frá hinum vélsleðanum 5 klst seinna gefur til kynna að aðstæður á jöklinum til leitar voru hörmulegar í nótt.
Marg sinnis var búið að keyra yfir svæðið þar sem sleðinn var án þess að menn yrðu hans varir.
Leitarhundur er í snjóbíl á svæðinu þar sem sleðinn fannst og standa vonir til þess að hægt verði að nota hann þegar veðrinu slotar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar fer í loftið á milli 7:30 og 8:00 til leitar. Með henni verður einn leitarhundur í viðbót sem freistast á að koma niður á jökulinn í nágrenni við sleðann sem fannst síðast. Þyrlan mun leita slóðina sem áætlað var að mennirnir ætluðu að fara.
Mennirnir sem leitað er að eru 34 og 45 ára gamlir.

—————-
Vefslóð: landsbjorg.is
Höfundur: Stefán