Massaferðin nálgast

Undanfarar minna á Massaferðina sem verður í næstu viku. Ætluð brottför úr bænum er síðdegis miðvikudaginn 23. apríl og heimkoma aftur á sunnudagskvöldið 27. apríl. Stefnan er sett á Öræfin og slegið verður upp tjaldbúðum í Skaftafelli.

Í Öræfunum og Suðursveit er ógrynni af mögulegum verkefnum fyrir alla þá sem hafa áhuga á klifri, göngu og skíðum. Þátttakendur velja sér viðfangsefni eftir áhuga og gera út frá tjaldbúðunum á eigin vegum. Að kvöldi sameinast svo hópar aftur í tjaldbúðum, éta vel og blóta komu sumars að heiðnum sið.

Á mánudagskvöldið 21 apríl kl. 19 verður undirbúningsfundur á M6. Allar nánari upplýsingar kom þar fram. Enn má skrá sig á korkinum og með tölvuskeytum á “halfdana(hjá)hi.is”. Þegar er myndarlegur hópur skráður til leiks auk nokkurra vel valinna gesta.

Sem fyrr er þó áréttuð krafan um snyrtilegan klæðnað.

—————-
Texti m. mynd: Góður dagur á fjöllum
Höfundur: Hálfdán Ágústsson