Nærvera sálar

Í útkalli nýlega þótti svæðisstjórn nauðsynlegt að senda í loftið áminningu til björgunarmanna að samskipti við fjölmiðla færu eingöngu í gegnum Slysavarnarfélagið Landsbjörg. Góð ábending og þörf. Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um alla þá möguleika sem bjóðast til umfjöllunar. Hver er ekki á Facebook, Tvitter eða bloggar um sitt líf. Allt gott um það að segja, auðvitað er hverjum og einum það í sjálfsvald sett hvaða upplýsingar hann birtir um sig. Skemmtileg viðbót við lífið ef rétt er farið með.

Í eiðstaf HSSR er sérstaklega tekið á trúnaði og gáleysislegum orðum. Ég hef haft eina reglu varðandi umfjöllum um útköll. Hún er einföld, ég ræði þau ekki utan HSSR, hvorki í ræðu eða riti. Reglan er það einföld að ég þarf aldrei að hugsa mig um hversu miklar upplýsingar ég læt frá mér og stöðu minnar vegna fæ ég mikið að spurnigum. Ég útskýri stundum að ég ræði útköll ekki vegna trúnaðar og flestir kaupa það. Ef það er ekki keypt er það ekki mitt vandamál.

Á Tvitter vefnum stendur þetta: Share and discover what"s happening right now, anywhere in the world. Svaka flott en á ekki við útköll björgunarsveita. Þau eiga að vera í trúnaði, bæði meðan á þeim stendur og einnig eftir að þau eru afstaðinn.

—————-
Höfundur: Haukur Harðarson